140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staða íslenskrar kvikmyndagerðar.

[16:28]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stöðu íslenskrar kvikmyndagerðar. Það er full þörf á því og full ástæða til að þakka þessa umræðu sem hv. þm. Þráinn Bertelsson á frumkvæði að.

Það er gleðilegt að sjá núna loksins beinharðar staðreyndir sem sanna að kvikmyndagerð á Íslandi er alvöruatvinnuvegur sem er bæði burðugur og vaxandi. Enginn vafi er á því að mikið samhengi er á milli kvikmyndagerðar og ferðaþjónustu. Við sjáum það í athyglisverðri bók Ágústs Einarssonar, um hagræn áhrif kvikmyndalistar, að nýlegar kannanir sýna fram á að þessi tengsl eru afar mikil; 10–14% þeirra sem ferðuðust til Íslands á árinu 2010 nefndu sérstaklega að það hefði verið vegna efnis um Ísland og frá Íslandi í sjónvarpi og útvarpi sem þeir tóku ákvörðun um að koma hingað til lands.

Það er rétt sem fram hefur komið í umræðunni að framlög til Kvikmyndasjóðs voru skorin niður, allt of mikið illu heilli, strax á þessum missirum eftir hrun. Hins vegar vil ég fagna því sérstaklega að nú hefur náðst, að frumkvæði hæstv. menntamálaráðherra og fagfélags kvikmyndagerðarmanna, nýtt samkomulag sem vekur vonir um að nú verði vörn snúið í sókn. Framlögin eiga að hækka tiltölulega lítið til að byrja með, en síðan skarpt á komandi árum. Þegar við erum komin fram á árið 2015 horfum við fram á um það bil 40% aukningu á framlögum til Kvikmyndasjóðs Íslands frá því sem nú er.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga að endurgreiðslur til innlendra kvikmyndagerðarmanna hafa verið að aukast mjög undanfarin missiri. Þær voru yfirleitt á bilinu 100–250 milljónir á ári undanfarinn áratug, en voru, eins og hæstv. ráðherra kom inn á hér í umræðunni, yfir 400 milljónir á árinu. Á árinu 2011 runnu því yfir 900 millj. kr. til íslenskrar kvikmyndagerðar í landinu.

Þessi geiri hefur gríðarleg sóknarfæri. Við þurfum að hlúa að honum. Þetta er burðarás innan skapandi greina og gott merki um það fjölbreytta atvinnulíf sem þessi ríkisstjórn vill standa vörð um.