140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

staða íslenskrar kvikmyndagerðar.

[16:30]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir að taka upp mikilvæg mál hér. Við höfum ekki gleymt því hvað hann stóð sig vel, sá hv. þingmaður, í að verja stöðu Kvikmyndaskólans fyrir stuttu. Það var vel gert.

Ég undirstrika líka sérstaklega að það fjármagn sem er sett í kvikmyndagerð skilar sér svo margfalt til baka. Allar kannanir hafa sýnt það. Það var gerð könnun á 112 verkum sem voru framleidd hér 2006–2009. Í henni kom í ljós að 44% af fjármagninu sem varð grunnurinn að verkefnunum voru erlent fjármagn. Það kom að utan. 34% voru innlendir peningar, ekki samt ríkisstyrkur. Einungis 22% voru opinber framlög þannig að þessi 112 verk voru mestmegnis unnin á grundvelli erlends fjármagns og að hluta til innlends fjármagns án ríkisstuðnings, en 22% með ríkisstuðningi. Þessar tölur segja mjög margt. Sumir halda að þetta sé allt meira eða minna framleitt af innlendu, opinberu fé. Svo er sannarlega ekki.

Ég vek líka athygli á fyrirspurn sem sú er hér stendur lagði fram í fyrra til hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Á síðustu árum hefur norræna efnið í Ríkisútvarpinu einungis verið 7,5%. Helmingur var íslenskt efni, 26% var bandarískt efni. Mér finnst hlutur norræns efnis rýr, sérstaklega þegar við horfum til þess að í sömu fyrirspurn kom fram að áhorfið á norræna efnið var talsvert meira en áhorfið á bandaríska efnið. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra og Ríkisútvarpið að koma til móts við það sem kom fram í fyrirspurninni, að viðkomandi aðilar vildu gjarnan auka norrænt efni í Ríkissjónvarpinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt, bæði vegna tungumálsins og menningarheims okkar, en líka af því að fólk hefur áhuga á þessu efni. Það sýna kannanir.