140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[16:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum. Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir frumvarpið áðan. Eins og ég nefndi í stuttu andsvari mínu virkar þetta fyrst og fremst sem tæknilegt mál. En þegar menn skoða viðskipti á milli landa er oft — ef ég má kannski sletta örlítið, með leyfi forseta, „the devil in the details“ eins og þeir segja á enskri tungu. Það er ekki bara af góðmennsku einni sem reglur sem þessar eru settar. Þær eru oftar en ekki til að vernda ákveðna viðskiptahagsmuni og gera mönnum erfiðara fyrir að versla á milli landa. Þess vegna fóru menn af stað með Bretton Woods-samkomulaginu og settu fram GATT-samkomulagið á sínum tíma, sem síðan þróaðist út í Alþjóðaviðskiptastofnunina sem hefur það að markmiði að vera með alheimsreglur yfir viðskipti, bæði um vörur og svo í seinni tíð þjónustu og hugverkaréttindi og ýmislegt annað. Þar takast menn á við þrengri hagsmuni, þ.e. ekki hagsmuni heimsins, og þá sérstaklega þeirra landa sem eru hvað fátækust og eiga hvað mest undir því að það séu frjáls alheimsviðskipti, og menn eigast við um hagsmuni ríkari þjóða og ríkjabandalaga, eins og Evrópusambandsins, sem hafa gert hvað þeir geta til að vernda sína framleiðslu og sinn heimamarkað fyrir samkeppni erlendis frá. Mig minnir að átta viðskiptalotur hafi verið hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni, GATT, þær gætu nú hafa verið fleiri, svolítið er síðan ég leit á það. Það segir sína sögu að Evrópusambandið hefur aldrei haft frumkvæði að neinni þessara lotna. Eins og staðan er í dag er afskaplega lítið að gerast á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Menn telja jafnvel að langt verði í það, jafnvel ekki, að sú lota klárist sem hefur verið í umræðunni í áratug í það minnsta.

Þess vegna er afskaplega mikilvægt að við förum vel yfir það þegar við fáum svona tæknilegar úrlausnir, eins og þetta frumvarp ber með sér, og að við séum ekki að loka á markaðinn og ganga á rétt íslenskra neytenda. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra — við förum auðvitað betur yfir það í hv. efnahags- og viðskiptanefnd — hvað þetta þýddi varðandi umboðsmanninn. Ég ætla ekki að rengja hæstv. ráðherra en hann nefndi að ákvæðið sem um er að ræða sé fyrst og fremst ívilnun frá því sem nú er. Allra hluta vegna er mikilvægt fyrir okkur að fara yfir það.

Þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi bent á það að frumvarpið hafi verið í meðförum þingsins áður og fengið nokkrar umsagnir ber á það að líta að ekki er mikil þekking á þessum málum hér á landi. Þess vegna verður hv. efnahags- og viðskiptanefnd að vera þeim mun meira vakandi þegar málið kemur til nefndarinnar og fara vel yfir þetta.

Ég nefndi í stuttu andsvari áðan dæmi um tæknilegar viðskiptahindranir sem við horfum upp á hvern einasta dag. Það er, eins og ég nefndi, í besta falli spenna, við getum líka kallað það stríð án hefðbundinna vopna, sem betur fer, á milli Bandaríkja Norður-Ameríku og Evrópusambandsins sem kemur fyrst og fremst fram í því að lítill vilji er hjá aðilum að koma á fríverslun milli þessara svæða, sem væri auðvitað afskaplega mikill hagur að. Sömuleiðis eru ýmsar leiðir farnar til að halda vörum annars aðilans frá heimamarkaði hins, kemur til dæmis fram í því sem ég nefndi áðan að á öllum matvörum verða menn að líma miða með alveg eins innihaldslýsingu og er á amerísku vörunum, ef undan er skilið að um amerísku vörurnar eru þær reglur að það þarf að vera innihaldslýsing á hvern skammt, þ.e. skammt af því sem notaður er. Má segja að það sé auðvelda leiðin þegar fólk er til dæmis að fylgjast með hvað það innbyrðir margar kaloríur eða hvað annað sem fólk er nú að fylgjast með í mataræði sínu, og það verður að heimfæra það yfir á 100 grömm. Væri fróðlegt að vita hver kostnaðurinn er á bak við hverja einustu dollu af tómötum eða hvað það nú er þegar búið er að líma miða með innihaldslýsingu fyrir 100 grömm, oft með svo pínulitlu letri að við sem erum komin nærri því á miðjan aldur eigum jafnvel erfitt með að lesa. Þetta er því fyrst og fremst kostnaður, ekki neitt annað, og gert til þess að halda vörum frá markaðnum.

Enda hefur það gerst frá því við gengum inn í EES — þó að við höfum hagnast mikið á því að mörgu leyti, ég ætla ekki að gera lítið úr því — og það er engin tilviljun, að verslun, innflutningsverslun, hefur færst frá Bandaríkjunum yfir í Evrópu. Það er auðvitað í samræmi við áætlun Evrópusambandsins, þ.e. að hafa eins mikla verslun innan Evrópusambandsins og mögulegt er. Það er nefnilega fullkominn misskilningur, og jafnvel er einn og einn aðili sem talar fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu sem dettur í þá gryfju, að tala um Evrópusamband sem einhvers konar frelsisbandalag í viðskiptum. Því er algjörlega öfugt farið. Evrópusambandið er tollabandalag og er með mjög skýrt markmið um að reyna að halda eins mikilli verslun innan sinna raða og mögulegt er. Það er metið sem svo að Evrópusambandið sé ríkur markaður, ef þannig má að orði komast, og það sé hagur Evrópusambandsins og ríkja þess að eiga eins mikil viðskipti sín á milli og mögulegt er og verja sig með tollamúrum.

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem bara lesið athugasemdir við frumvarpið og farið hérna yfir það. Það er ekki mörgu við það að bæta efnislega sem hæstv. ráðherra fór yfir. Miðað við texta frumvarpsins gengur það út á að innleiða Singapúrsamninginn um vörumerkjarétt, taka inn ákvæði úr norrænni fyrirmynd og síðan að auka skýrleika einstakra ákvæða í gildandi lögum og þar með talið þetta umboðsmannamál sem ég vísaði í áðan ásamt ýmsu öðru. Flest af þessu hljómar alveg prýðilega.

Hæstv. forseti. Ég held hins vegar allra hluta vegna, sérstaklega miðað við eðli þessara mála, að það sé afskaplega mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari vel yfir málið og kalli til þá aðila sem best þekkja til. Ég held að við gætum jafnvel þurft að kalla til — ég er nú ekki að hugsa um að kalla þá fyrir nefndina, ég er meira að hugsa um að kalla eftir upplýsingum einhvers staðar annars staðar frá en á Íslandi, vegna þess að lítil, vil ég fullyrða, sérfræðiþekking er á þessum málum. Svo eru þeir sem hafa kannski mest sinnt þessu á vettvangi Íslands, ásamt ýmsum öðrum embættismönnum, algjörlega uppteknir í því að vinna í aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og hafa lítinn tíma fyrir þjóðarhag á meðan.