140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu og fyrir að mæla fyrir því hér í dag. Það er ekki vanþörf á að við fáum fleiri stjórnarmálefni til umfjöllunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd eins og staða mála er þar og sá mikli málafjöldi sem við eigum fram undan á vorþinginu miðað við þau frumvörp sem boðað var að nefndin þyrfti að taka til umfjöllunar og gera auðvitað helst að lögum á yfirstandandi þingi.

Eins og fram hefur komið er hér á ferðinni gamall kunningi, mál sem áður hefur verið til umfjöllunar og þegar það er nú endurflutt hefur verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem komu fram í hinni fyrri þinglegu meðferð. Hér er því fyrst og fremst um að ræða tæknileg úrlausnarefni og ég tek undir með hv. 5. þm. Reykv. s. að mikilvægt er að við í efnahags- og viðskiptanefnd fáum til liðs við okkur þá sem vel þekkja til á þessu sviði. Hér er auðvitað fyrst og fremst verið að fylgja með í þróun alþjóðaréttar og samninga um þessi efni, Singapúrsamningsins og þróun Evrópuréttarins sömuleiðis, auk þess sem verið er að skýra einstök ákvæði. Ég sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar mun að sjálfsögðu fá til að rýna þetta með okkur þá sem gerst þekkja og einstakir nefndarmenn kunna að óska eftir á milli umræðna til að tryggja sem vandaðasta umfjöllun málsins. Ég vonast jafnframt til að í þetta sinnið megi takast að ljúka umfjöllun um málið og gera að lögum vel fyrir vorið.