140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:20]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri það að hv. þingmaður er í miklu stuði og ég skal gjarnan taka þátt í því með honum að skemmta mér í þessari umræðu. (Gripið fram í.)

Hversu umfangsmikil þessi þjónusta er? Ég var að reyna að svara því á þann augljósa hátt sem mér finnst liggja í augum uppi: Það verður eftirspurnin eftir þjónustu stofnunarinnar sem stjórnar því. Þetta eru væntanlega þarfir sem við ætlum að leysa úr, við ætlum að hafa þessa hluti í lagi hjá okkur þannig að þeir sem leita eftir þeirri þjónustu að skrá hér vörumerki fái þá þjónustu. Annað hefur ekkert staðið til en að hér eftir sem hingað til borgi menn fyrir þá þjónustu sem þeim er veitt og fái í staðinn skráninguna eða annað sem þar er á ferðinni.

Ég kann ekki nákvæmlega tölur svo að ég viðurkenni það hreinlega, en þetta er ekki mjög stórt batterí það ég best veit. Hvað þessi þáttur mála er nákvæmlega stór hjá Einkaleyfastofunni skal ég ekki segja en eigum við að giska á að þetta sé batterí sem velti 100–200 milljónum, ég er ekkert frá því að það sé nærri lagi. Þetta er því ekki mjög umfangsmikil starfsemi en mikilvæg engu að síður.

Varðandi það hvort þarna eigi að starfa úrskurðarnefnd eða þarna eigi að vera málskotsréttur til æðra stjórnvalds tengist kannski því hversu stóra og mikla hagsmuni menn telja sig eiga þarna. Menn geta auðvitað alltaf leitað réttar síns ef þeir telja á sér brotið en hvort á að byggja það inn í ferlið með úrskurðarnefnd eða málskotsrétti til æðra stjórnvalds eða hvort menn eiga að sæta endanlegum úrskurðum þarna um þessa skráningu og annað slíkt, hafandi andmælarétt og hafandi alla aðstöðu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og leita réttar síns um ágreiningsmál með hefðbundnum hætti fyrir dómstólum, skal ég ekki segja en það má sjálfsagt færa rök fyrir hvoru tveggja.

Með þjónustugjöldin er þetta hið almenna fyrirkomulag, hér er einfaldlega ekki verið að breyta nokkrum sköpuðum hlut. Þvert á móti er verið að gera ákvæðin skýrari um það (Forseti hringir.) hvernig gjöldin fyrir tiltekna þjónustu skuli flokkuð (Forseti hringir.) o.s.frv.