140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í neinar samlíkingar en hæstv. ráðherra var fjármálaráðherra fyrir stuttu síðan. Mig rekur minni til þess að hafa fengið umsögn frá fjármálaráðuneytinu út af Fjármálaeftirlitinu þar sem hvorki meira né minna en því var haldið fram að það væri jafnvel verið að brjóta stjórnarskrána með því fyrirkomulagi sem er hjá Fjármálaeftirlitinu, það var ekkert minna sagt en það. Farið var mörgum orðum um það hvað Fjármálaeftirlitið hefði stækkað stjórnlaust eða stjórnlítið og ákveðið sér fjárveitingar. Svo hart var þetta álit að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra — fyrrverandi að vísu, núverandi er hér — taldi að hæstv. fjármálaráðherra gengi allt of langt í pólitík með þessari umsögn. Það eru nokkrir dagar síðan, það nær ekki mánuði, og núna kemur hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og gengur í rauninni lengra en hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra þegar hann ver Fjármálaeftirlitið og nefnir meðal annars að ástæðan fyrir þessum útgjöldum hjá Fjármálaeftirlitinu sé sú að þar sé svo mikil rannsóknarvinna út af hruninu. Það er ekki rétt.

Hér höfum við, virðulegi forseti, dæmi, af því að það er talað um að þetta sé aldrei með þeim hætti að þingið ákveði gjöld. Ég hvet hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi ráðherra nokkurra ráðuneyta að kynna sér úrvinnslugjaldið sem gengið er frá hér (Forseti hringir.) á hverju ári eftir að hv. umhverfisnefnd hefur ákveðið (Forseti hringir.) hvernig það á að vera.