140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

vörumerki.

269. mál
[17:29]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef í engu skipt um skoðun frá því að ég var að glíma við þessi mál sem fjármálaráðherra. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við getum haft fyrirkomulag þessara mála þannig að einstakar einingar í ríkisrekstrinum geti algerlega skammtað sér rekstrarumfang sjálfar og það gangi bara sjálfvirkt utan úr bæ inn í fjárlögin jafnvel þó að þessar stofnanir byggi á sértekjum og jafnvel þó að það sé mikilvægt að þær séu sjálfstæðar í störfum sínum. Auðvitað verður að gæta að þeim sjónarmiðum þar sem þau eru þar sem við höfum jafnvel skuldbundið okkur til að tryggja sjálfstæði og óhæði tiltekinnar starfsemi. Ég legg ekki þann skilning í að það upphefji venjuleg sjónarmið, ákvæði fjárreiðulaga og fjárveitingavald og fjárstjórnarvald Alþingis, enda væri það þá komið út á mjög alvarlega braut. Það eru engin tilefni til að ætla mér slíkar skoðanir, ég veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma látið í ljós að svo eigi að vera.

Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að í sumum tilvikum eru árlega ákveðnar fjárhæðir á ýmsum gjöldum. Það er gert með stærri krónutöluskatta, nefskatta og því um líkt. En það er líka mjög mikið að hreinum þjónustugjaldskrám þar sem heimildir eru í lögum til að ákveða þær með tilteknum hætti, allt auðvitað innan marka þess sem slík ákvarðanataka verður að uppfylla, þ.e. að um sé að ræða eiginleg þjónustugjöld sem endurspegli kostnað við að veita viðkomandi þjónustu, ekki sé um að ræða tekjustofn eða skatt sem sé falinn í slíku. Þetta eiga auðvitað hv. þingmenn að þekkja. Það er nákvæmlega (Forseti hringir.) ekkert óvenjulegt á ferðinni í þessu tilviki.