140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Ég hlakka til að fara yfir málið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. En bara svo það sé skýrt, og ég held að allir hljóti að vera sammála um það, eigum við að gera það sem við mögulega getum til að koma í veg fyrir þessa iðju, peningaþvætti.

Hins vegar fara menn oft af stað með góðan ásetning sem kemur síðan út í miður góðri framkvæmd þannig að það er afskaplega mikilvægt að fara vel yfir þessi mál eins og aðra hluti. Fljótt á litið verð ég að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á breytingunum sem gerðar verða varðandi lög og reglur um peningaþvætti því að varla skilja þessi blessuð persónuskilríki þarna á milli eða hafa allt að segja. Menn hafa í það minnsta verið á sérkennilegum slóðum ef þeir telja að gengið geti að menn sýni bara persónuskilríki til að sanna hverjir þeir eru.

Það er aukaatriði. Þetta voru ágætar fyrirspurnir frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni sem ég veit að hæstv. ráðherra mun fara vel yfir í svari sínu. Við erum örugglega efnislega sammála um þetta en við skulum vona að þetta sé ekki eitthvert frumvarp sem byggt er á tilskipun Evrópusambandsins eins og eitt sem ég man sérstaklega eftir, það gekk út á, þegar menn greindu það, að sett yrði upp ein heimasíða sem engin þörf var á og var mikið lagt í lítið verk.