140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[17:56]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég efast ekki um góðan hug hv. þingmanna til að leggja sitt af mörkum í baráttu gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Það er alveg ljóst að það er mikilvægur liður í baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi að koma í veg fyrir þvættun á óhreinu fé. Það er kannski sá þröskuldur sem stundum er hægt að stöðva slíkt á að menn geti ekki komið hagnaði af slíkum ólöglegum athöfnum með eðlilegum hætti milli landa o.s.frv.

Upp úr aldamótunum færðist aukinn kraftur í alþjóðlega viðleitni til að samræma aðgerðir gegn fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og mætti ýmislegt um það segja, en af skiljanlegum ástæðum hafa þau mál líka verið talsvert í fókus undanfarin ár.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um undirbúning á frumvarpinu eru fyrst og fremst taldir upp þeir aðilar sem sitja í nefnd um aðgerðir gegn peningaþvætti í síðustu málsgrein greinargerðarinnar áður en kemur að athugasemdum um einstakar greinar. Það er liður í þessum aðgerðum sem okkur er uppálagt að fara eftir og höfum gert það, að búa til samstarfsnefnd mjög margra aðila eins og þarna kemur fram, í raun allra þeirra sem helst geta lagt baráttunni lið til að sinna þessu viðfangsefni. Það er í þann hóp sem þarna er verið að vísa. Persónuvernd situr ekki í þeim hópi. Ég hef ekki ástæðu til að ætla að það sem hér er á ferðinni sé viðkvæmt gagnvart meðferð persónuupplýsinga, þ.e. ekki það að ákveða hvaða skilríki skuli teljast viðurkennd. Það getur tæpast talist persónuverndarmál sem slíkt.

Í öðru lagi svara ég þeirri spurningu að mér er ekki kunnugt um neinn ágreining við þá aðila sem lögðu hönd á plóg við undirbúning málsins. Ég hef alla vega ekki verið látinn vita af neinu slíku þannig að það getur tæpast verið að þar hafi verið alvarlegur ágreiningur á ferð. Mér þykir líklegt, svo ég svari því þá enn varkárar, að ég hefði verið aðvaraður um það ef einhver mjög umdeild atriði væru þarna á ferðinni, enda sé ég í fljótu bragði ekki auðveldlega hver þau ættu að vera, en kannski má með mikilli hugkvæmni reyna að finna það út.

Varðandi skuldbindingar sem fylgja því að vera þátttakendur í hinu alþjóðlega samstarfsneti, FATF, legg ég þann skilning fyrst og fremst í það og eins og minni mitt dugar mér, eftir að hafa komið að þessum málum á fyrri árum á Alþingi þegar verið var að setja þessi lög og breyta þeim og færa inn í þau ítarlegri ákvæði t.d. um baráttu gegn fjármögnun hryðjuverka, að það sem menn skuldbinda sig til í þessu sambandi er að samræma tiltekna þætti sem snúa að aðgerðum á þessu sviði og ekkert annað. Lögð er áhersla á að beitt sé samræmdum úrræðum varðandi rekjanleika og upplýsingagjöf á þessu sviði í alþjóðlegri viðleitni til að stemma stigu við ósómanum, hvoru tveggja peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Það er ekkert annað sem menn undirgangast í þessum efnum af fúsum og frjálsum vilja en að taka þátt í þeirri alþjóðlegu viðleitni sem samræmd hefur verið undir þessum hatti samanber það, eins og áður kom fram, að aðgerðir innan Evrópusambandsins á þessu sviði, regluverk Evrópuréttarins er samræmt þessum alþjóðlegu tilmælum þannig að það er eitt og hið sama eins og ég skil það, það kemur þá í raun og veru út á eitt. Þetta mun aðallega vera fólgið í þessu tvennu.

Þá hef ég reynt að svara held ég þeim fjórum spurningum sem hv. þingmaður bar fram.