140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

278. mál
[18:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins að hnykkja á varðandi þann hóp fólks sem er í nefnd um aðgerðir gegn peningaþvætti. Ég hef komið með þá ábendingu og vil inna hæstv. ráðherra frekar eftir því hvort honum þyki ekki rétt að þeir sem sérþekkingu hafa á persónuvernd og það hlutverk í samfélaginu að gæta að réttindum borgaranna ættu að vera í slíkum hópi þar sem ákvarðanir eru teknar varðandi aðgerðir til að koma í veg fyrir svo hrikalegan hlut sem peningaþvætti er. Ég réttlæti það ekki. En hins vegar er alltaf hægt að ganga of langt og jafnvel á rétt borgaranna.

Fulltrúar Seðlabankans komu að mig minnir á fund efnahags- og skattanefndar, eins og hún hét þá, þegar við vorum að ræða almennt um þetta málefni. Við spurðum út í aðgerðir bankans hvað þessi mál varðar og þá kom það upp úr dúrnum að það er deild innan Seðlabankans sem hefur eftirlit með kreditkortanotkun Íslendinga erlendis. Hafa margir heyrt um það? Það er að mínu viti brot á friðhelgi einkalífsins. Ef þeir sjá eitthvað óheppilegt, einhverjar óeðlilegar upphæðir á kortunum, er hringt í viðkomandi bankastofnun og kortinu lokað. Maður veltir fyrir sér hversu langt menn geta farið í þá átt að skerða persónufrelsi einstaklinga og fara í einkamál þeirra.

Auðvitað eiga þessir aðilar að hafa einhverjar heimildir en við verðum að rata hinn gullna meðalveg í þeim efnum eins og öðrum. Þess vegna inni ég hæstv. ráðherra eftir því hvort ekki sé eðlilegt þegar menn eru í starfi sem þessu að fólk sem hefur sérþekkingu á persónuvernd almennt komi að starfi þeirrar nefndar sem ég nefndi áðan.