140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:23]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gekk bara út frá því að hv. þingmenn þekktu sögu málsins og það kom fram og því var dreift á Alþingi í tíð forvera míns í embætti sem efnahags- og viðskiptaráðherra, hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Um tillöguna var hins vegar gott samkomulag í ríkisstjórn og tillögugreinin var sérstaklega rædd þar og gerðar á henni breytingar þangað til að ég má segja allir voru mjög sáttir. Ég segi fyrir mitt leyti að ég er prýðilega sáttur við áherslurnar sem birtast í tillögugreininni sjálfri. Um greinargerðina og fylgigögnin gegnir kannski öðru máli í þeim skilningi að að sjálfsögðu lá ríkisstjórn og aðrir ráðherrar ekki yfir því í einstökum atriðum en um tillögugreinina sjálfa, sem er væntanlega það sem við mundum afgreiða eða eitthvað í líkingu við hana, ríkti mjög góð samstaða þegar málið var til umfjöllunar í ríkisstjórn.

Varðandi erlendar fjárfestingar þá höfum við kannski ekki tíma til að fara yfir það í löngu máli en við bindum enn miklar vonir við að það fari af stað, vonandi á grundvelli ákvarðana sem jafnvel yrðu teknar á allra næstu vikum, einhver af þeim meðalstóru fjárfestingarverkefnum sem hafa verið í undirbúningi undanfarin eitt til eitt og hálft ár.