140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Merkileg túlkun hjá hæstv. ráðherra. Að sjálfsögðu er það greinargerðin sem er undirbyggingin að tillögunni sem við ræðum hér.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Annars vegar um það sem kemur fram á bls. 13, með leyfi frú forseta:

„Í öðru lagi hefur íslenska krónan gríðarlegan mikinn fælingarmátt þar sem gengisáhættan er liður sem flækist fyrir öllum áætlunum og rekstrarforsendum.“

Hvernig samræmist þetta málflutningi hæstv. ráðherra þegar kemur að gjaldmiðilsmálum á undangengnum árum? Hann leggur þessa tillögu fram og hér er sem sagt verið að vitna í undirgögn sem eru skrif Ásgeirs Jónssonar hagfræðings, sem er nátengdur eða alla vega tengdur fjölskylduböndum núverandi hv. þm. Jóni Bjarnasyni.

Síðan langar mig að benda á bls. 5. Þar er sérstaklega getið um það að áhugi erlendra álfyrirtækja á undanförnum árum staðfesti að í þeim geira er Ísland þegar komið á kortið sem staðsetningarkostur. Það er margt áhugavert sem kemur fram í þessu þingmáli sem Steingrímur J. Sigfússon mælir hér fyrir. (Forseti hringir.) En ég held að Vinstri hreyfingin – grænt framboð geti ekki toppað það hvernig hægt er að hringsnúa öllum stefnumálunum og setja á hvolf eftir því sem líður á þetta kjörtímabil.