140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög skýrt, en ég skil þá ekki af hverju hæstv. ríkisstjórn hefur lagt jafnmikið á sig og raun ber vitni til að koma í veg fyrir þessa fjárfestingu. Ég nefndi hérna nokkra þætti, einn þeirra snýr að orkunni og það skiptir engu máli hvort það eru álver eða aðrir þættir, við þurfum ekki að fjölyrða neitt um það. Ég nefndi heilbrigðismálin. Það var unnið að því í fyrri ríkisstjórn að vera með sameiginlegan norrænan heilsumarkað og ýmis tækifæri á því sviði sem sannarlega mundu uppfylla alla kríteríuna hér en ríkisstjórnin núverandi reyndi að drepa alla þá vaxtarbrodda sem þar gætu verið.

Það hefur komið fram að erlendir aðilar höfðu áhuga á því að kaupa í Högum en þeir hættu við út af samkeppnislöggjöfinni sem hæstv. núverandi ríkisstjórn kom með. Svo erum við náttúrlega með þetta sem kallað er pólitísk áhætta, „political risk“, sem kom með þessari ríkisstjórn og er meðal annars farið yfir hjá (Forseti hringir.) fræðimanninum títtnefnda, Ásgeiri Jónssyni, og margir aðrir hafa rætt um.