140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:31]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er kominn út á gamalkunnar slóðir. Ég hefði gjarnan kosið að menn hefðu rætt um hvort það séu ekki sameiginleg sjónarmið að það sé ástæða til að taka til efnislegrar umfjöllunar og umræðu stefnumótun á þessu sviði og þá hvernig hún eigi að vera o.s.frv.

Núverandi ríkisstjórn hefur gert ýmislegt til að greiða götu fjárfestinga, t.d. með rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga, fyrstu lögin sem sett hafa verið af því tagi. Sömuleiðis lög um sérstakan stuðning við nýsköpun og rannsókn á þróun og endurgreiðslu kostnaðar í þeim efnum. Á grunni rammalöggjafarinnar sem ég nefndi áðan hafa verið gerðir fjárfestingarsamningar sem nýta þau lagaákvæði við eina fjóra, fimm aðila að minnsta kosti svo ég viti til og hef komið að. Það eru kísilframleiðendur, það eru gagnaver, það er aflþynnuverksmiðja, efnaiðnaður, þannig að þar er akkúrat í gangi þróun í átt til aukinnar fjölbreytni og nýrra iðngreina (Forseti hringir.) sem ég tel að sé tvímælalaust jákvætt að við fáum inn í efnahagslíf okkar.