140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel þingmenn Sjálfstæðisflokksins kjarkmikla að koma hingað upp og tala um orðsporsskaða sem Ísland hafi orðið fyrir af völdum núverandi ríkisstjórnar. Ætli það sé ekki þannig að hrunið sem hér varð í boði Sjálfstæðisflokksins 2008 sé stærsti skellur sem við eiginlega í okkar sögu höfum orðið fyrir í þeim efnum. (PHB: Heldurðu að við ...?) Ætli það sé ekki þannig, hv. þingmaður? Þetta finnst mér nú koma úr hörðustu átt. Og ætli það sé ekki þannig að það sé búið að byggja upp talsvert orðspor í stað þess sem hrundi 2008 eða var það ekki þá sem landið lokaðist með öllu, eignir okkar voru frystar og við komumst hvorki lönd né strönd? Ekki fór íslenska ríkið út á skuldabréfamarkað síðustu tvö árin sem Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði fjármálaráðuneytinu eða missirin þar á eftir en það tókst í júní á síðasta ári og Ísland er komið inn úr kuldanum aftur. Það er til marks um það að við erum að endurheimta virðingu og traust hægt og bítandi á grundvelli þess árangurs sem við höfum náð en við eigum heilmikið verk fyrir höndum áður en sá stórskaði, sem á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins varð á orðspori Íslands árið 2008, verður að fullu bættur.