140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:41]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög áhugavert ef okkur tekst að laða til samstarfs og fjárfestinga hér erlenda aðila á nýjum sviðum atvinnuuppbyggingar sem við teljum að falli vel að markmiðum okkar, t.d. um áherslur í umhverfismálum og öðrum þeim sem rakin eru í tillögugreininni, á sviðum þar sem Íslendinga skortir kannski bæði þekkingu og markaðsaðstæður til að taka þá áhættu sjálfir eða ráðast í þær sjálfir. Ég geri ekki ráð fyrir því til dæmis að við gerumst stóriðja á sviði kísiliðnaðar, alla vega ekki fyrr en sá iðnaður væri búinn að byggjast upp hér á landi á grundvelli þekkingar sem aðrir búa yfir og/eða markaðsaðgangs sem aðrir hafa tryggan en væri auðvitað erfitt fyrir okkur að byggja upp frá byrjun. Svipað gæti gilt að einhverju leyti til dæmis um gagnaverin, efnaiðnað, aflþynnuiðnað eða annað því um líkt að það er ekki víst að það yrði léttur róður fyrir Íslendinga sjálfa að standa fyrir slíku en ef slíkur iðnaður kemur hingað og þekking byggist upp á honum getur það orðið annað mál til framtíðar litið. Ef um er að ræða tæknivæddan, þróaðan (Forseti hringir.) umhverfisvænan iðnað sem vill fá aðgang að okkar endurnýjanlegu orku tel ég að slíkt gæti verið mjög jákvætt ef það er í boði.