140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra sem er ráðherra í svo mörgum ráðuneytum að mér endist ekki tími til að telja það upp í þessari stuttu umræðu, fyrir það mál sem hann hefur gert grein fyrir og varðar erlenda fjárfestingu. Hún er auðvitað mikil höfuðnauðsyn fyrir okkur, sérstaklega þegar við skoðum hagsögu okkar og sjáum að í efnahag okkar hefur lítil sem engin erlend fjárfesting verið nema í dollaraiðnaðinum í stóriðjunni og hún er með nokkrum hætti hliðstæð í hagkerfi okkar en ekki fjárfesting í íslenska krónuhagkerfinu. Það er auðvitað ein af ástæðunum fyrir því að við horfum mörg til þess að fækka viðskiptahindrunum til landsins og teljum að til að greiða fyrir erlendri fjárfestingu sé til lengri tíma gríðarlega mikilvægt að við verðum hluti af stærra myntsvæði en íslenska krónan nær yfir. Við teljum að slík grundvallarbreyting á skipan mála hjá okkur sé líkleg til þess, og það sýnir reynsla annarra þjóða, að auka verulega erlenda fjárfestingu í hagkerfi okkar. Á henni þurfum við að halda því að við Íslendingar erum ríkir af auðlindum og við erum rík af mannauði. Til að ná að nýta þessa miklu auðlegð þurfum við fyrst og síðast á fjárfestingu að halda, fjárfestingu til að nýta hvort tveggja, mannauðinn í landinu og auðlindir okkar til að auka almenna hagsæld.

Annar þáttur sem hefur auðvitað skipt máli eru þær takmarkanir sem verið hafa á erlendri fjárfestingu og ég hygg að stafi að verulegu leyti af því að okkur hefur enn ekki auðnast að ná fullnægjandi pólitísku samkomulagi í landinu um það hvernig við tryggjum eign Íslendinga, almennings í landinu, á auðlindum landsins hvort sem það er auðlindum í hafinu, orkuauðlindum, hvort heldur er fallvötnum eða jarðhita, landi í sjálfu sér og öðrum þeim auðlindum sem við lítum á sem sameiginlegar. Oft og einatt þegar rætt er um erlenda fjárfestingu sem snertir einhvern af þessum auðlindaþáttum vaknar mikil tortryggni um að í því felist ævarandi framsal á eignarhaldi sjálfra auðlindanna sem við viljum að séu í þjóðareigu, til erlendra aðila. Ástæðan er sú að við höfum ekki tryggt kirfilega íslensk yfirráð yfir auðlindunum og að auðlindarentan af þeim gangi tryggilega í sameiginlega sjóði landsmanna. Þannig að gagnvart fjárfestum, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir sem fjárfesta og greiða auðlindarentu og lúta íslenskum yfirráðum yfir auðlindunum, er ekki nægilega góð tilfinning hjá almenningi. Ég held að stjórnmálaöflin verði að viðurkenna að ekki hefur tekist að búa til nægilega sterkan lagaramma um það hvernig þessum málum er skipað til að hér megi vera tiltölulega greið leið til að sækja erlenda fjárfestingu til uppbyggingar í þeim greinum þar sem við höfum enn svo mörg sóknarfæri og byggja á auðlindum okkar og á afleiddri starfsemi.

Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og til þeirrar umræðu sem við getum haft um málið að þeirri umfjöllun lokinni.