140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helga Hjörvar, formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hann tveggja spurninga. Annað er að ég hef lagt fram frumvarp um kvótann, þ.e. að dreifa kvótanum á þjóðina. Gæti hv. þingmaður séð sambærilega lausn í orkunni? Það mundi gera okkur kleift að aflétta þeim hömlum sem eru á fjárfestingu í bæði sjávarútvegi og í orku sem eru kannski áhugaverðustu fjárfestingarkostirnir á Íslandi.

Síðan er önnur spurning sem snýr að því að nú er búið að lækka vexti á Íslandi og ná nokkurn veginn tökum á verðbólgunni. Það eru miklir peningar í framboði en engin eftirspurn. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað valdi því að hans mati að Íslendingar vilji ekki fjárfesta þrátt fyrir þessar forsendur. Raunvextir eru í raun stórlega neikvæðir á innlánsreikningum og skattaðir þar alveg undir drep, nóg framboð virðist vera af peningum alls staðar, jafnt hjá lífeyrissjóðum sem bönkum og bara hvar sem er, allt er yfirfullt af peningum en enginn vill fjárfesta. Af hverju halda menn að útlendingar vilji fjárfesta á Íslandi ef Íslendingar vilja það ekki?