140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[18:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef alltaf verið dálítið skotinn í hugmynd hv. þingmanns um kvótann og raunar lýst henni sem skoðun minni fyrir löngu síðan að ef landsmenn, hver fyrir sig, fengju sendan sinn hlut í veiðiheimildunum, væri það ákjósanleg aðferð til að tryggja að þjóðin fengi rentuna af sjávarauðlindinni, sérstaklega vegna þess að hægt væri að gera það frá ári til árs og ekki mundu fylgja þeir ókostir sem hafa fylgt aðgerðum sem notaðar hafa verið við einkavæðingu opinberra fyrirtækja því að þeim hefur fylgt sá böggull að fólk selur eignarhlutinn varanlega en í endurnýjanlegri auðlind fengi fólk þessi réttindi frá ári til árs. Það er bara skemmtileg hugmynd. Ef hægt væri að nota hana víðar eða ná um hana sátt skyldi ég ekki standa í veginum fyrir því að hún næði fram að ganga.

Hin spurningin er kannski áhugaverðari. Hvernig stendur á því þegar hér er allt fljótandi í peningum í bankakerfinu og til dæmis safnast upp hjá lífeyrissjóðunum gríðarlegar fjárhæðir á reikningum að ekki skuli vera fjárfest meira? Það er ekki hægt að svara því nema með einum hætti, þ.e. að hér skortir hvað sem öllu okkar tali líður, fjárfestingartækifæri. Þá spyr hv. þingmaður: Af hverju ættu útlendingar þá að koma hingað að fjárfesta? Ég held að það sé einmitt ein af meginástæðunum fyrir því að við eigum að sækjast eftir erlendri fjárfestingu. Slíkir fjárfestar koma með fjárfestingartækifærin með sér, þekkingu, reynslu, aðstöðu á markaði, sambönd og annað slíkt sem getur skapað ný fjárfestingartækifæri sem við þekkjum ekki, höfum ekki þekkingu á innan lands og þau geta jafnvel dregið að sér innlent fjármagn í blönduð verkefni og sameiginleg verkefni.