140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[19:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stefnu um beina erlenda fjárfestingu. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að hjartað í mér tók smáhopp þegar ég sá þetta. Þetta er algerlega í mínum skilningi og ég gleðst yfir þessu. Mér finnst reyndar undarlegt að í þingsályktunartillögu er undirstrikað að Alþingi þurfi að árétta að á Íslandi gildi eignarréttur. Það er dálítið undarlegt en það er kannski ástæða til. Það er kannski ástæða til að undirstrika það að hér gildi eignarréttur.

Eins og ég gat um áðan í andsvari er heilmikið af tækifærum á Íslandi. Það sem hamlar öllum tækifærum er vantraust manna, svokallaðra ljótra fjármagnseigenda, því það er orðinn ljótur þjóðfélagshópur í orðræðu hv. stjórnarliða, á stefnuna í alls konar málum, bæði umhverfismálum, skattamálum, nánast öllu sem myndar ytri ramma utan um fjárfestingu. Fólk sem hefur horft upp á að skattar hafa verið hækkaðir aftur og aftur, og jafnvel hefur verið sagt sem frægt er orðið, hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra sagði að menn hefðu ekki séð allt, það er til þess að hrella og hræða fólk frá því að fjárfesta.

Ég held að menn ættu að skoða af hverju Íslendingar fjárfesta ekki áður en þeir fara að skoða af hverju útlendingar ættu frekar að fjárfesta. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að útlendingar koma oft með þekkingu og tækifæri með sér en Íslendingar eru líka í tengslum við útlendinga sem vilja fjárfesta en þora það ekki vegna stefnu okkar og hvernig framtíðarsýnin er. Það sem kannski skortir mest á, frú forseti, er einmitt að það er engin framtíðarsýn. Þeir sem ætla að fjárfesta þurfa að vita að þeir ætla að binda peningana sína sem þeir eiga inn í eitthvert verkefni. Þeir vilja helst geta séð að þeir fái peningana til baka og helst með einhverri rentu en aðallega fá peningana til baka. Það er ekki útséð um það eins og menn tala hérna um fjármagn, vegna þess að fjárfestingar krefjast fjármagns. Fjármagn er upprunalega í eigu einstaklinga og þeir einstaklingar eru ekki tilbúnir til að setja þá peninga í hættu, það fjármagn sem þeir eiga, ef þeir treysta ekki viðkomandi ríkisstjórn.

Ég vona að sú hugarfarsbreyting sem ég heyrði í ræðu hæstv. ráðherra valdi því að um raunverulega hugarfarsbreytingu sé að ræða gagnvart fjármagni og fjárfestingum, tillagan verði rædd í nefndinni og komi virkilega því til leiðar sem henni er ætlað að gera, að auka traust á fjárfestingum. Þá getur vel verið að öll þau gullnu tækifæri sem Íslendingar hafa og eiga komi fram í dagsljósið eins og nýspretta á vorin þegar sólin fer að skína og hér verði miklar fjárfestingar og aukið fjármagn, bæði innlent og erlent, sem skapi atvinnu þannig að fólk þurfi ekki að fara í til útlanda eða í nám til að forðast atvinnuleysi. Ég vona að tillagan nái því fram, en vera má að skipta þurfi um ríkisstjórn til þess.