140. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[19:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir þátttökuna í umræðunni sem hefur verið áhugaverð, og gaman að því að menn gleðjast mjög yfir því að þessi mál séu komin á dagskrá. Ég tel að mikilvægt sé að við ræðum þetta. Ég hef að vísu gaman af því að menn telja að þetta boði einhver meiri háttar tímamót að ég mæli fyrir þessari tillögu, hvort sem heldur varðar mína persónulegu afstöðu til þessara mála eða afstöðu ríkisstjórnarinnar, en ég endurtek að um tillögugreinina og þá stefnumótun sem þar er á ferð var ágæt samstaða í ríkisstjórn.

Að sjálfsögðu koma erlendir fjárfestar ekki hingað í góðgerðarskyni. Þeir ætla sér arð af fjárfestingu sinni og hollt er að hafa það í huga en auðvitað gildir það um innlenda fjárfesta líka. Það er enginn eðlismunur á þeim í þeim skilningi. Að sjálfsögðu viljum við gjarnan að hér sé kraftmikil uppbygging á okkar eigin vegum og innlend fjárfesting sé öflug, en við skulum hafa í huga, þó að það hafi ekki verið nefnt í sjálfu sér hér, að á þessu máli eru tvær hliðar. Við erum með opið hagkerfi og við viljum að okkar fyrirtæki geti fjárfest erlendis og höfum lengi gert. Við eigum okkur langa sögu til dæmis í því að okkar burðugustu fyrirtæki eða samtök hafi fjárfest í vinnslu sjávarfangs með því að kaupa upp framleiðslustarfsemi og byggja upp verksmiðjur til að vera nær stórum neytendamörkuðum erlendis.

Iðnfyrirtækin okkar sem hafa sem betur fer mörg vaxið og blómgast, sprottin upp úr nýsköpun og hugviti eða samstarfi hugvitsmanna og háskólasamfélags, eins og Marel og Össur, hafa tekið út mikinn vöxt með fjárfestingum erlendis, bæði með því að kaupa upp framleiðslustarfsemi á skyldum sviðum og/eða koma sér nær markaðnum með ýmsum slíkum aðferðum. Og væntanlega teljum við ekki hagstætt að þetta sé algerlega á aðra hliðina, að fjármagn leiti héðan út úr landinu í fjárfestingar og tækifæri sem vissulega getur gagnast. Svo lengi sem höfuðstöðvar þeirra fyrirtækja eru hér þá njótum við góðs af. En á móti þeirri fjárfestingu sem við leggjum í og býr til störf og umsvif annars staðar viljum við auðvitað gjarnan sjá að eitthvað gagnstætt geti gerst á móti.

Eins og ég fór yfir þetta hefur það einkennt ferilinn að hin almenna fjárfesting í litlum og meðalstórum fyrirtækjum hefur ekki verið mikil þó að vissulega séu dæmi um slíkt og þar á meðal nýleg. Til dæmis sjáum við núna á skömmum tíma að byggingarvöruverslun hefur vakið áhuga erlendra fjárfesta. Önnur í erlendri eigu eru að hefja hér starfsemi. Erlend fyrirtæki hafa komið inn í verktaka- og mannvirkjagerðarfyrirtæki og ýmist átt hlut í þeim eða jafnvel nær að öllu leyti þannig að vissulega eru dæmi um slíkt en þau eru ekki ýkjamörg. Ég hygg að ef tölur í þessum efnum væru skoðaðar og lagðar saman kæmi í ljós að hin erlenda fjárfesting, að því marki sem hún hefur verið og náð einhverju mælanlegu magni í íslenska hagkerfinu undanfarna áratugi, sé fyrst og fremst hinar einstöku stórfjárfestingar sem okkar endurnýjanlega orka hefur laðað að sér sem telja.

Ég þakka fyrir umræðuna og vænti góðs af því starfi sem hv. þingnefnd mun hafa með höndum varðandi tillöguna.