140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá.

[10:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Forseti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég hef mjög miklar áhyggjur af því sem er fram undan. Fyrst var það þannig að með meirihlutakosningu á Alþingi var komið á fót stjórnlagaþingi. Meiri hluti þingsins ákvað að kjósa inn í sérstakt stjórnlagaráð fulltrúa sem áður höfðu tekið þátt í kosningunni en hún var síðan ógilt. Það á að nota vinnu þeirra fulltrúa til að vinna áfram með í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Forsætisráðherra er opin fyrir því að meiri hluti þeirrar nefndar komist að niðurstöðu um tillögur stjórnlagaráðsins og að sú niðurstaða verði borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvaða þýðingu á sú þjóðaratkvæðagreiðsla að hafa?

Við erum að tala um gögn sem ekki hafa verið tekin til umræðu í þinginu, gögn sem þingið hefur ekki fengið að tjá sig um. Fyrst tekur meiri hlutinn völdin og kýs stjórnlagaráð, síðan tekur hann meirihlutavöldin í nefndinni og heldur sína eigin þjóðaratkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Þetta verður þá þjóðaratkvæðagreiðsla Samfylkingarinnar og Vinstri grænna — um hvað? Hvernig væri að við í þinginu færum að ræða þetta efnislega? (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er ekki byrjuð að ræða efnislega eitt einasta atriði í stjórnarskrárdrögunum, (Forseti hringir.) engin efnisleg umræða er hafin.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.)