140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ef ég man rétt fékk þingið tækifæri í upphafi þings til að ræða um skýrslu stjórnlagaráðs og ég veit ekki betur en að málið hafi núna verið í tvo mánuði til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar hefur verið tækifæri fyrir alla þingmenn í þeirri virðulegu nefnd til að fjalla um málið og veit ég ekki betur en að sú umfjöllun sé langt komin þótt eitthvað sé eftir. Án þess að ég hafi hugmynd um það tel ég að minnsta kosti líkur á því að það sé góður vilji fyrir því hér, og meiri hluti, að málið fari inn í þetta ferli, fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og að því loknu inn í þingið og í frumvarpsbúning og verði afgreitt þar endanlega.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að þær tillögur sem fram hafa komið og mikil vinna hefur verið lögð í af stjórnlagaráðinu fái að standa sem mest óbreyttar. Það þarf að vísu eitthvað að fara yfir þær (Forseti hringir.) og lagfæra en við verðum að muna að þingið hefur verið ófært um að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Ég held að leiðin sem við erum að fjalla um núna sé leiðin til þess. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)