140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða kjarasamninga.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Skilaboðin eru að horfa bjartsýnum augum til framtíðar og vinna með ríkisvaldinu að því að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Það eru mín skilaboð til þeirra. Ríkisvaldið hefur staðið við sinn hlut að því er varðar atvinnuuppbygginguna og ýmislegt er í gangi að því er varðar opinberar framkvæmdir. Það hefur gengið tregar að því er varðar almenna markaðinn. En sem betur fer erum við að sjá ýmislegt glæðast þar. Margt er í pípunum sem við getum verið nokkuð bjartsýn með að geti skapað fjárfestingar á næstu þremur, fjórum árum, sem eru í spánum, upp á 75 milljarða; og meira í pípunum eins og ég hef komið inn á.

Það voru engin smáverkefni sem ríkisvaldið fór í með aðilum vinnumarkaðarins, tengd kjarasamningum. Ég er viss um að svo langt aftur sem menn leita hefur engin ríkisstjórn sett á borð eins viðamikinn pakka eða aðgerðir til að ná kjarasamningum og tryggja stöðugleika á næstu þremur, fjórum árum. Við erum öll af vilja gerð til að leggja okkar af mörkum til að það náist en til þess þarf að vera sanngirni á báða bóga, sem er ekki.

Þau atriði sem fyrst og fremst standa út af eru lífeyrismálin. Menn verða að hafa í huga að þar eru ekki neinar smátillögur að takast á við, m.a. tillögur sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn höfðu enga döngun í sér til að taka á meðan þeir voru í ríkisstjórn og meðan til var fullt af peningum. Það snýst um að fara í uppgjörið á A-hlutanum og fara í uppgjörið á B-hlutanum og það verður ekki hrist fram úr erminni. Af þeim 44 atriðum sem við settum af stað er rúmlega helmingnum lokið og 19 af þeim eru í góðum farvegi. Sumt af því sem atvinnulífið nefnir, eins og SA, um réttarstöðu fólks við aðilaskipti, og segir að við höfum ekkert gert í er nú orðið að lögum, sem er bara eitt dæmi um það hvernig þeir matreiða sannleikann, þeir háu herrar á þeim bæ.