140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða kjarasamninga.

[10:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við erum orðin vön þeirri umræðu að ríkisstjórnin sem nú situr við völd sé einhver misskildasta ríkisstjórn sögunnar. Hún er alltaf að gera allt fyrir alla og þegar menn sjá það ekki þá er það allt saman (Gripið fram í.) misskilningur. Við erum vön því í stjórnarandstöðunni að vera sökuð um það að sjá allt í tómu svartnætti og vera að misskilja allt, væntanlega af því að við erum í grímulausri stjórnarandstöðu. Svipuðum orðum er farið um Samtök atvinnurekenda í landinu en það vill svo til að hvert stéttarfélagið á fætur öðru innan verkalýðshreyfingarinnar og stéttarfélagasamböndin tjá sig með nákvæmlega sama hætti. Þau sjá ekki efndir ríkisstjórnarinnar. Það er stóri vandinn. Ríkisstjórnin er greinilega ánægð með sitt. Vandinn er sá að það sér enginn annar þau stórkostlegu skref sem hún hefur verið að stíga.