140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

andstaða við ESB-umsókn.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar fyrst út af upphafsorðum hv. þingmanns að segja að mér finnst hún stundum gleyma því að við höfum verið að ganga í gegnum hrun á þremur árum. (Gripið fram í: Hér varð hrun.) Við tókum við 14,5% halla á ríkissjóði sem kominn er niður í 1,5%. Það hlýtur að skila sér í einhverju, það skilar sér meðal annars í því að við erum betur stödd til að taka á málum til framtíðar, við þurfum að greiða minna í vexti svo nemur mörgum tugum milljarða, og það skiptir auðvitað öllu máli. En það er eins og sumir í salnum haldi að hér hafi aldrei orðið hrun en það eru til staðreyndir.

Varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu og ESB þá er munurinn á mér og hv. þingmanni sem hér talaði sá að ég treysti þjóðinni. Ég treysti þjóðinni til þess að meta það hvort hún vilji þá samninga sem við komum með þegar samningsferlinu í Brussel er lokið. Ég tel að það sé þjóðin sjálf sem eigi að taka ákvörðun um það, taka afstöðu til þess, hvort hún telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið innan ESB með þá samninga sem við komum með og vonandi fyrr en síðar. Það er það sem mér finnst skipta máli í þessu öllu saman.

Það eru ekki stjórnmálaflokkarnir á Alþingi sem eiga að taka ákvörðun fyrir þjóðina um það að hún eigi ekki að fá að taka afstöðu til málsins. (BJJ: Eins og Icesave.) Við erum komin langt í þessu ferli og ég vonast til þess að samningsferlinu verði lokið á þessu kjörtímabili og hægt sé að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. Ég bið hv. þingmann í guðanna bænum um að treysta þjóðinni til að meta hvort rétt sé eða rangt að Ísland gangi í ESB á grundvelli þeirra samninga sem við komum með. Höfum í huga að fjöldi manns leggur sig fram um að þeir samningar sem við leggjum fram til þjóðaratkvæðagreiðslu verði bestu samningar sem völ er á.