140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

andstaða við ESB-umsókn.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Alltaf þegar hv. þingmaður nefnir hrunið finnst mér hún skauta léttilega fram hjá helstu orsökum þess. (Gripið fram í.) Ég held til dæmis að mjög margir í þessu samfélagi vilji fá úttekt á einkavæðingu Búnaðarbankans og Landsbankans á sínum tíma. Helmingaskiptunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skiptu þessum bönkum á milli sín, vildu ekki dreifða eignaraðild, vildu bara eignast þessa banka; það var upphafið að hruninu. Ég skil ekki af hverju svo treglega gengur í þinginu að fá samþykkta þingsályktunartillögu um að fram fari úttekt á einkavæðingu Búnaðarbanka og Landsbanka. Ég er hrædd um að það komi margt í ljós. (Gripið fram í.) — Gott og vel, ég heyri að framsóknarmenn vilja ólmir fá þessa tillögu á dagskrá og ég vona að forseti heyri það líka. Ég vona að við fáum þessa tillögu á dagskrá og afgreiðum hana í eitt skipti fyrir öll, að við fáum það upp á borðið hver var orsök hrunsins. Það er ekki vafi í mínum huga að það var einkavæðingin á Búnaðarbankanum og Landsbankanum.

Látum svo ESB hafa sinn gang þannig að það verði þjóðin sem greiði atkvæði um það þegar við komum með samningana heim. (Gripið fram í: Heyr! Heyr!)