140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér gefur að líta mjög bjarta framtíðarsýn. Það er staðreyndin. Við erum að breyta nálgun okkar til samgöngumála í ýmsum veigamiklum atriðum. Við erum farin að hugsa heildstætt. Við horfum til landsins alls. Við erum að horfa til mismunandi samgöngumáta, ferða á sjó og flutninga á sjó. Ég gat þess áðan að í næstu viku upplýsum við um niðurstöðu nefndar sem hefur haft strandsiglingar með höndum. Við erum að horfa á samgöngur í lofti og samgöngur á landi heildstætt.

Ég las upp fjöldann allan af stórframkvæmdum og smáum framkvæmdum sem ákveðið er samkvæmt þessum gögnum að ráðast í á komandi árum. Mér finnst bjart yfir þessari áætlun. Hitt er svo annað mál að við höfum takmörkuð fjárráð. Mér finnst það góðs (Forseti hringir.) viti þegar talað er um þessi mál af raunsæi, því að það hefði verið mjög auðvelt (Forseti hringir.) að búa til bók bólgna af tölum og froðu sem er ekki innstæða (Forseti hringir.) fyrir. Þetta er raunsætt og það er bjart yfir þessari áætlun.