140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki að það eigi að skoða það hvort „núll-sýnina“ eigi að fjármagna. Ég tel að það eigi að fjármagna hana að fullu.

Ég vil spyrja um annað því að mönnum verður tíðrætt um að fjármagn skorti til þeirra mikilvægu framkvæmda sem nauðsynlegar eru í þessum málaflokki. Nú er augljóst að víða um lönd hafa menn tekið upp veggjöld til að standa undir framkvæmdum. Hér hafa verið uppi tillögur um ýmsar mikilvægar samgöngubætur, m.a. til að draga úr umferðarslysum sem fjármagna mætti með veggjöldum. Ég sé ekki að í þessari langtímaáætlun í samgöngumálum sé nein stefna í því með hvaða hætti við öflum aukinna fjármuna til vegaframkvæmda með gjaldtöku á vegunum, heldur sé það líka eitthvað sem eigi bara að skoða í einhverri nefnd. Er ekki ótímabært að afgreiða áætlun ef enn á eftir að skoða í nefnd grundvallaratriði eins og sýnina í umferðaröryggismálunum og hvernig við notum veggjöld til að (Forseti hringir.) fjármagna framkvæmdir?