140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég ítreka það sem kom fram í fyrra svari mínu varðandi umferðaröryggisáætlun, að hún verður fjármögnuð eins og verið hefur af ráðstöfunarfé Vegagerðarinnar.

Varðandi fjármögnun samgöngukerfisins segir í áætlunum okkar að við munum taka til skoðunar breytta gjaldtöku í umferðarkerfinu almennt — að við hverfum þá frá skattlagningu á eldsneyti og horfum frekar til nýtingar á vegunum, þ.e. einhvers konar akstursgjald.

Hvers vegna ákveðum við það ekki bara hér og nú? Menn hafa verið með slík áform uppi, t.d. í Hollandi og víðar í Evrópu, frestað framkvæmdinni af tæknilegum ástæðum, en við erum staðráðin í að halda þessari vinnu áfram. Ég sé það fyrir mér að þetta gæti orðið fýsilegur valkostur (Forseti hringir.) sem til dæmis gagnast okkur til að draga úr mengun og stýra umferðinni. En þetta eru mál sem þarf einfaldlega (Forseti hringir.) að skoða rækilega áður en ráðist er í breytingar.