140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[11:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Ja, það er ekki, hæstv. forseti, dónalegt að vera tekinn í kennslustund í málefnalegri umræðu af hálfu fyrrverandi prófessors í hagfræði við háskólann og núverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þær tölur sem við leggjum inn í þetta frumvarp byggja á hagvaxtarspám. (Gripið fram í.) Vissulega er hægt að afla aukinna fjármuna inn í samgöngukerfið. Þá þurfum við að gera annað tveggja: við hækkum skatta eða tökum veggjöld; skattleggjum umferðina. Er hv. þingmaður að leggja það til? Nú er ég tilbúinn að fara í málefnalega umræðu við hann.

Ég óska eftir því að hann skýri það fyrir okkur hér á eftir hvernig hann ætlar að fara að því að afla meira fjár til samgöngumála. Ég er spenntur að taka þessa umræðu. Vill hann hækka skatta til þess? Eða ætlar hann að leggja sérstök gjöld á umferðina? Ég óska eftir málefnalegri umræðu um nákvæmlega þetta.