140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[12:08]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í neinum smáatriðum ofan í þær tillögur til þingsályktunar sem liggja fyrir um samgönguáætlun og eru ræddar hér samtímis, heldur langar mig aðeins að drepa á nokkrum atriðum sem eru mér mjög hjartfólgin og lúta að grunnstefnu eða meginmarkmiðum og stefnumótun stjórnvalda í samgöngumálum yfirleitt.

Eins og kemur fram í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun til ársins 2022 liggja nokkrir þættir til grundvallar sem eru tilteknir hér í plagginu, þ.e. að unnið skuli að samgöngumálum á þessu tímabili í samræmi við stefnumótun þar um og helstu markmið. Þau markmið sem eru tilgreind er að koma á greiðum samgöngum og hagkvæmum, umhverfislega sjálfbærum og öruggum. Síðast en ekki síst er það eitt af meginmarkmiðunum að samgöngur stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Undir öll þessi markmið skal heils hugar tekið.

Það er líka tekið fram að unnið skuli á grundvelli skilgreiningar á grunnneti samgöngukerfisins sem nái til landsins alls og sé ætlað að tryggja landsmönnum greiðar samgöngur. Þessi hugmynd um grunnnetið er grundvallarforsenda allrar vinnu sem innt er af hendi í samgöngumálum. Þar af leiðandi hlýtur grunnnetið, grunnþjónustan, að verða fyrst í forgangsröðuninni þegar kemur að því að skenkja fjármunum eða ákvarða verkefni, þ.e. það hlýtur að vera grundvallaratriði að koma á samgöngum áður en farið er að endurbæta annars ágætar samgöngur sem búið er að koma á víðast hvar. Þetta nefni ég fyrst og fremst vegna þess að ég tel að í ákveðnum landshlutum hafi orðið verulegur misbrestur á þessu, þar hafi þeirri frumskyldu ekki verið fullnægt að koma á sómasamlegum og viðunandi samgöngum. Ég nefni ákveðin byggðarlög á Vestfjörðum eins og Árneshrepp og síðan samgönguleysið sem er níu mánuði ársins á milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða.

Í kaflanum um stefnumótun, þ.e. um markmið um greiðar samgöngur, er réttilega talað um að aðgengi og hreyfanleiki í samgöngukerfinu fyrir flutninga á fólki og vörum innan svæða og milli svæða þurfi að bæta og að sköpuð séu skilyrði fyrir sem flesta landsmenn að komast til atvinnu og þjónustukjarna á innan við einni klukkustund.

Það er talað um að skilgreindir verði atvinnu- og þjónustukjarnar landsins í sóknaráætlunum landshluta og landskipulagsstefnu og að samgöngur styrki uppbyggingu og þróun þjónustusvæða í öllum landshlutum. Síðan eru tiltekin nokkur áhersluatriði til að ná þessu markmiði, meðal annars að byggja grunnnetið upp með hliðsjón af sóknaráætlunum landshluta og tillögum um forgangsröðun framkvæmda byggðum á félagshagfræðilegri greiningu, sem mér finnst mjög athyglisvert og jákvætt, að bæta þjónustu í grunnnetinu og að grunnnetið verði endurskilgreint með það að markmiði að hraða uppbyggingu vega til að þjóna atvinnulífinu með viðunandi hætti, auk þess að stuðla að umferðaröryggi. Meira að segja er talað um almenningssamgöngur og mikil áhersla lögð á þær, að þeim verði komið á milli þéttbýlisstaða og innan þéttbýlis, og síðan að hugað verði sérstaklega að þörfum ferðaþjónustu við uppbyggingu og að markaðssvæði ferðaþjónustu verði höfð til hliðsjónar.

Ég drep á þessum áherslupunktum til að undirstrika meðal annars að ég tel að það skorti nokkuð á þegar litið er á verkefnaáætlunina að þessum markmiðum sé náð með fullnægjandi hætti. Sérstaklega er mér umhugað um markmiðið um jákvæða byggðaáætlun því að eins og segir réttilega í kaflanum þar um tengja samgöngur saman fólk og byggðir. Í samræmi við sóknaráætlun og svæðisskiptingu landsins er lagt til að forgangsröðun framkvæmda taki mið af þörfum einstakra svæða fyrir bættar samgöngur og til að efla sveitarfélög og styrkja hvert svæði sem og landið allt. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Stytting ferðatíma, uppbygging vega með bundnu slitlagi og gerð jarðganga til að leysa af hólmi erfiða fjallvegi skapa betri skilyrði fyrir jákvæða byggðaþróun og eflingu einstakra atvinnu- og þjónustusvæða.“

Ég verð að segja, frú forseti, að í ljósi þessarar háleitu markmiðssetningar eru mikil vonbrigði að sjá ekki gert ráð fyrir jarðgöngum í samgönguáætlun að þessu sinni fyrr en eftir árið 2015, þ.e. ekki er gert ráð fyrir neinum framkvæmdum á næstu þremur til fjórum árum. Það eru ekki síst veruleg vonbrigði að sjá Dýrafjarðargöngum frestað enn eina ferðina og núna aftur fyrir árið 2019. Að vísu er gert ráð fyrir 20 milljónum, svona einhverjum undirbúningsfjármunum á árinu 2012, en að öðru leyti eru göngin ekki á dagskrá fyrr en eftir 2019.

Um mikilvægi Dýrafjarðarganga þarf ekki að fjölyrða, held ég, á þessum vettvangi. Með þeim væri verið að leysa af hólmi stórhættulega fjallvegi, þá sérstaklega Hrafnseyrarheiði sem er hættulegasti fjallvegur landsins. Með Dýrfjarðargöngum yrði heilsársvegur um Dynjandisheiði að vera hluti af þeirri framkvæmd, það verður að vera. Þá væri verið að tengja byggðarlög sem nú eru aðskilin níu mánuði ársins. Sú einangrun þýðir að fara þarf 450 km leið til að komast á milli svæða yfir vetrartímann. Sérfræðingar eru að vísu sammála um, eins og kemur fram í byggðaáætlun, að þessi tenging er lífsnauðsynleg fyrir áframhaldandi viðgang byggðar á sunnanverðum Vestfjörðum. Það hefur beinlínis verið sagt af til þess bærum aðilum og sett á prent að það sé veruleg hætta á því að byggðum á sunnanverðum Vestfjörðum blæði út og það samfélag deyi hreinlega ef þessari tengingu verði ekki komið á.

Mér finnst mjög merkilegt að á bls. 19 í þingsályktunartillöguplagginu, þar sem merkt er við mikilvægi þeirra framkvæmda sem tilgreindar eru í verkefnaáætluninni, skuli byggðareiturinn ekki fá sinn kross eins og aðrir reitir, að við þessa mikilvægustu byggðaaðgerð, liggur mér við að segja, fyrir einn landshluta skuli ekki vera merkt við byggðasjónarmið sem gildari áhersluþátt í stefnumótuninni.

Ég þarf ekki að minna hæstv. innanríkisráðherra á fyrirheit ríkisstjórnarinnar og ekki síst hans sjálfs um að nú sé komið að því að setja Vestfirði í forgang vegna þeirra vandkvæða sem sá landshluti býr við í samgöngulegu tilliti, raforkulegu tilliti og vegna þeirra erfiðleika sem byggðarlögin þar hafa átt við að stríða síðustu áratugi þar sem fólksfækkun er hvergi meiri. Sérstaklega í þessu ljósi finnst mér ástæða til að halda þessum málflutningi uppi, bæði á þessum vettvangi hér og í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þegar málið kemur til afgreiðslu þangað.

Við vitum að samgöngumál í fjórðungnum eru í uppnámi. Það er ekki bara Dynjandisheiði og Dýrafjarðargöng heldur er allt í uppnámi varðandi leiðarval fyrir Vestfjarðarveg 60 eins og ráðherrann ætti að þekkja manna best. Íbúar í Árneshreppi, svo að ég bregði mér yfir á hinn enda kjálkans, fá ekki einu sinni snjómokstur. Þar er ekki hægt að jarða fólk skammlaust vegna samgönguerfiðleika. Fólk kemst ekki til vinnu. Börn komast ekki í skóla. Eins og forsvarsmenn Árneshrepps hafa réttilega bent á í ítrekuðum erindum sínum til ráðuneytisins og þingmanna er ekki með neinni sanngirni hægt að segja að það svæði búi við samgöngur sem séu sæmandi á 21. öld. Það verður bara að segjast í nafni sanngirninnar.

Það eru líka vonbrigði í ljósi mikilla samgönguerfiðleika íbúa Árneshrepps — fyrst ég er farin að tala um hann — að Strandavegur 643 skuli ekki vera á vegáætlun 2011–2020 og að vegur um Veiðileysuháls, sem var á fyrri samgönguáætlun en var þurrkaður út við efnahagshrunið, skuli ekki vera kominn þangað inn.

Þessu vil ég halda til haga í fullri hógværð, frú forseti. Ég er ekki að fara fram á það hér að farið verði í einhvern fjáraustur til að efla eða bæta samgöngur á mínu svæði. Ég er einfaldlega að reyna að höfða til þess grunnsjónarmiðs sem hlýtur að ráða öllum okkar gerðum, sérstaklega þegar fjármunir eru takmarkaðir, að forgangsraða í þágu þeirra sem í raun og veru bera skarðan hlut aðsjálfsögðum grundvallarréttindum sem allir landsmenn hljóta að eiga tilkall til sem skattgreiðendur hér á landi og íbúar og þegnar.

Í allri opinberri stefnumótun er lögð á það áhersla að íbúar landsins eigi ekki að gjalda fyrir búsetuval. Í því ljósi finnst mér átakanlegt að sjá ekki leyst úr samgönguvandræðum íbúa í Árneshreppi í eitt skipti fyrir öll og að sjá öðrum lífsnauðsynlegum samgönguframkvæmdum slegið á frest, sem eiga að tengja byggðarlög og veita atvinnulífi á þessum svæðum, ferðaþjónustu, sjávarútvegi og öðru, jafnræði til að geta eflst og þróast.

Ég verð því miður að segja, frú forseti, að á meðan samgöngumál í einum landshluta eru í þeim ólestri sem raun ber vitni á Vestfjörðum er ekki hægt að segja að markmið og stefna samgönguáætlunar hafi neina merkingu. Ég treysti því að okkur takist að breyta því í meðförum þessa máls.