140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011-2022.

393. mál
[12:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég get sagt það hér að ég mun styðja hv. þingmann í samgöngunefnd til að færa þessi verkefni framar í forgangsröðina, til að tryggja eðlilegar samgöngur í Árneshreppi, til þess hugsanlega að færa Dýrafjarðargöng framar í áætlun. Það getur ekki gengið að eitt landsvæði sé svona illa leikið.

Ég verð að segja að ég er mjög ánægður með að stjórnarþingmenn, eins og hv. þingmaður sem er varaformaður samgöngunefndar, séu tilbúnir í að ráðast í breytingar á samgönguáætlun, færa ákveðin verkefni framar. Í sameiningu getum við hugsanlega beitt okkur fyrir því að auka fjárveitingar til verkefna á svæðinu.

Ég vil lýsa yfir fullum stuðningi við hv. þingmann í þeirri baráttu og vonast til að eiga gott samstarf í nefndinni hvað þessi mál snertir.