140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

staða dýralæknisþjónustu um land allt.

[13:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er markmiðið að tryggja þessa þjónustu og dýravelferð. Allt miðar þetta að því.

Varðandi spurningu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þekki ég ekki til þess hvort gripið hafi verið til heimildarinnar eða undanþágunnar í 41. gr. um að tímabundið geti héraðsdýralæknir gripið inn í og veitt almenna þjónustu ef engin önnur úrræði eru. Það er að sjálfsögðu kostur sem má þá skoða sé svo alvarlega komið, sem ég veit nú ekki til að menn hafi beinlínis fullyrt þó að því sé jafnvel haldið fram hér, að heilbrigði og velferð dýra sé beinlínis í hættu.

Byggt er á þeirri reglugerð sem gefin var út 16. september 2011 af forvera mínum. Í henni kemur fram að Matvælastofnun skuli með reglubundnum hætti endurmeta þörf fyrir þjónustu. Það er hluti af utanumhaldinu að fylgjast með því hvort þetta nái tilgangi sínum. Er þjónustan að skila sér eins og henni er ætlað? Við erum að leggja af stað á grunni þessa nýja skipulags sem reglugerðin dró upp, þjónustusvæðanna sem þar eru afmörkuð o.s.frv. Jú, þau eru vissulega stór í sumum tilvikum en það verður náttúrlega að hafa það í huga að við erum að reyna að sinna þessu með þeim takmörkuðu fjármunum sem til staðar eru.

Varðandi samningamálin er staðan sú, ef ég kann þetta rétt, sem rétt er að hafa fyrirvara á, að í einu tilviki hefur ekki náðst samningur um almennu dýralæknisþjónustuna og það er í Húnaþingi. Þess vegna er því sinnt tímabundið frá Skagafirði. Það er auðvitað bagalegt og þar þyrfti að nást samningur. Hins vegar er það svo að samningar um bakvaktir hafa verið lausir á þriðja ár og ágreiningur uppi þar um eins og hv. málshefjandi veit örugglega. Félagsdómur féll í því máli og viðræður fóru af stað núna lítillega fyrir áramótin og þurfa að halda áfram því að auðvitað verður að reyna að lenda því máli, en þar er (Forseti hringir.) náttúrlega eins og stundum endranær í svona tilvikum tekist á um talsverða hagsmuni.