140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[14:02]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun hina minni og samgönguáætlun hina stærri. Ég kom í andsvar við hæstv. innanríkisráðherra fyrr í dag og lýsti yfir þeirri skoðun minni að þetta væru miklar umbúðir um lítið. En áður en ég ræði innihald þessara áætlana er rétt að vekja athygli á einu sem mörgum hefur verið hugleikið í umræðu um samgöngumál og það er hið svokallaða kjördæmapot.

Stofn- og tengivegir á Íslandi eru í kringum 9 þús. km og vegakerfið allt telur um 13 þús. km. Eins og þessar tölur bera með sér liggja vegir víða og í raun um allt og fyrir þingmann er engin leið að hafa yfirsýn yfir allt vegakerfið. Því hefur það þróast þannig í áranna rás að þingmenn kjördæmanna einbeita sér að því að þekkja samgönguleiðir í sínu kjördæmi og reyna að skilja þær þarfir sem liggja þar fyrir, bæði með samtölum við umbjóðendur sína og af eigin reynslu með því að skoða hvar pottur er brotinn og annað slíkt. Síðan hafa þeir barist fyrir einstökum framfaramálum í kjördæmum sínum og oftast barist fyrir sérstökum samgönguverkefnum.

Þetta kalla menn kjördæmapot og tala um það af mikilli lítilsvirðingu og oft skapar þetta togstreitu á milli kjördæma og á milli landsbyggðarkjördæma og kjördæma sem spanna höfuðborgarsvæðið. Oft heyrir maður þingmenn, til dæmis úr Reykjavík, segja: Hvernig stendur á því að verið er að berjast fyrir framkvæmd úti á þessu annesi langt frá höfuðborgarsvæðinu meðan hér er vegakerfið í ólestri og þarf að laga? (Gripið fram í: Rétt.) Og segja svo gjarnan: Þetta er úrelt gamaldags kjördæmapot. Í sömu andrá eru þeir í kjördæmapoti fyrir kjördæmi sitt með því að segja: Það á ekki að framkvæma í þessu kjördæmi heldur á að framkvæma í mínu kjördæmi.

Ég hef þá skoðun á því sem kallað hefur verið kjördæmapot í samgöngumálum að þetta sé besta fyrirkomulag sem við getum búið við, nákvæmlega af þeim ástæðum sem ég nefndi áðan; vegakerfið er svo gríðarlega umfangsmikið, 13 þús. km, að ekki er nokkur leið fyrir hvern og einn þingmann að hafa yfirsýn yfir það.

Að þessu sögðu sný ég mér að kjördæmapoti. Ég er úr Norðausturkjördæmi og tel mig þekkja vegasamgöngur þar mjög vel. Þar eru vissir agnúar á vegakerfinu þrátt fyrir að gríðarlega margt hafi verið gert í vegasamgöngum í Norðausturkjördæmi síðustu ár, svo sem yfir hálendið, göng á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar o.s.frv. Kerfið er því náttúrlega orðið allt annað en það var fyrir nokkrum árum eða áratugum.

En betur má ef duga skal. Mig langar að leggja sérstaka áherslu á fjórar framkvæmdir. Í fyrsta lagi eru það Norðfjarðargöng. Fjarðabyggð er gríðarlega víðfeðmt sveitarfélag, nær frá Stöðvarfirði í suðri í Mjóafjörð í norðri og inn á milli liggja mörg sveitarfélög. Nyrst í sveitarfélaginu er erfitt um samgöngur. Í fyrsta lagi er ekki fært í Mjóafjörð megnið af árinu nema með ferju og þar hefur verið rekin ferja í marga áratugi.

Síðan er það Neskaupstaður eða Norðfjörður eins og hann heitir, þar liggur leiðin yfir háan fjallveg, Oddsskarð. Þar voru ein af fyrstu göngum á Íslandi gerð undir bláskarðið en þau eru orðin gjörsamlega úrelt í dag. Þau uppfylla engan veginn það samgönguöryggi sem þarf að vera á milli Norðfjarðar og hinna hluta sveitarfélagsins auk þess sem þetta er hár fjallvegur sem teppist oft yfir veturinn bæði vegna hálku og svo er það nú þannig að við búum á Íslandi eins og borgarstjóri segir og þar er allra veðra von. Þarna er oft snjór og erfitt færi.

Jafnframt er á Norðfirði gríðarlega mikil atvinnustarfsemi. Þar er stærsta uppsjávarveiðifyrirtæki landsins sem er Síldarvinnslan. Þarna fara fram gríðarlega miklir flutningar á stórum bílum og oft kemur fyrir að göngin stíflast og verður stopp upp á hálftíma, þrjú korter, eða svo.

Góðar samgöngur eru líka öryggismál fyrir Austurland því Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað er staðsett þarna og fara þarf með sjúklinga yfir Oddsskarð og í gegnum þá holu sem kölluð er Oddsskarðsgöng sem, eins og ég sagði áðan, teppast oft af veðri eða bílaumferð stíflar göngin og annað slíkt. Það ríkir því mikill skilningur á því að ráðast þurfi í Norðfjarðargöng, þau hafa verið á dagskrá og flestir virðast sammála um að þetta sé næsta stóra samgöngumannvirki sem eigi að ráðast í en af einhverjum ástæðum hafa þau núna verið færð aftur. Hæstv. innanríkisráðherra, sem talsmaður ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum, beitir oft fyrir sig því mælskubragði að segja að ekki séu til peningar. Ég vil segja um þann málflutning að þetta snýst ekki um hvort til séu peningar eða ekki, þetta snýst fyrst og fremst um það hvernig við forgangsröðum í ríkisfjármálum. Auk þess eru umsvif sem fylgja slíkum göngum það mikil að göngin eru réttlætanleg þrátt fyrir að staðan geti verið erfið í ríkisfjármálum.

Í öðru lagi er það brúin yfir Jökulsá á Fjöllum. Hún er barn síns tíma og löngu kominn tími til að bæta hana en eins og með Norðfjarðargöng er sú framkvæmd sett á dagskrá einhvern tímann í framtíðinni sem er þægilega langt frá núverandi ríkisstjórn. Það er nauðsynlegt að byggja upp brúna yfir Jökulsá vegna þess, eins og við höfum séð, að þegar atburðir eins og eldgos og slíkt verða á Suðurlandi þarf að beina umferðinni lengri leiðina, getum við sagt. Flutningar yfir Jökulsá á Fjöllum eru mjög erfiðir og hættulegir eins og staðan er núna.

Þá kemur að þriðja mannvirkinu sem ég tel að sé bráðnauðsynlegt að ráðast í og það er ný brú yfir Skjálfandafljót. Það eru tvær brýr á landinu sem maður skilur eiginlega ekki af hverju er látið viðgangast að hafa í því standi sem þær eru, annars vegar brúin við Hornafjarðarósa og hins vegar brúin yfir Skjálfandafljót. Það er algjörlega bráðnauðsynlegt að ráðist verði í það sem fyrst að laga þessi mannvirki. En eins og með hin mannvirkin sem ég hef minnst á er þessi framkvæmd færð fram í framtíðina, þægilega langt frá núverandi ríkisstjórn.

Í fjórða lagi eru það Vaðlaheiðargöng. Vaðlaheiðargöng eru ekki á samgönguáætlun en eru auðvitað hluti af samgöngukerfinu í landinu. Ástæðan fyrir því að þau eru ekki á samgönguáætlun er sú að þau eru í einkaframkvæmd og koma ekki til með að taka fé beint úr ríkissjóði og vera á fjárlögum. Ég tel að þetta sé mjög arðsöm framkvæmd. Gefnar hafa verið út margar skýrslur undanfarið og í þeim koma fram margar mismunandi niðurstöður en þær byggja á mismunandi forsendum um umferðarspá. Svartsýnasta skýrslan er gerð af mætum manni að nafni Pálmi Kristinsson, en hann gerir ráð fyrir því að nú sé sprungin einhvers konar umferðarbóla og að umferð um Víkurskarð, sem Vaðlaheiðargöng eiga að leysa af hólmi, muni dragast saman og hún muni ekki ná sér aftur fyrr en að 20 árum liðnum.

Ég er svo sem ekki mikill sérfræðingur í umferðarspám en ég er ekki lítill sérfræðingur í þeim heldur. Ég hef þurft að vinna með umferðarspár í fyrri störfum mínum og jafnvel nú í dag og ég tel að þetta sé afar röng spá. Nú á að byggja upp mikil iðnaðarsvæði í Þingeyjarsýslum til að nýta orkulindir þar, á Þeistareykjum og á Kröflusvæðinu. Þessari uppbyggingu þarf að fylgja eftir með því að gera Eyjafjörð og Þingeyjarsýslurnar betur að einu atvinnusvæði en nú er og það þarf að vera tryggt að starfsfólk sem mun leita frá Akureyri til Þingeyjarsýslna til vinnu á þessum iðnaðarsvæðum geti farið um greiðan og öruggan veg. Það er ekki tryggt í dag, Víkurskarðið er oft eða að minnsta kosti nokkrum sinnum lokað yfir veturinn en það sem meira er er að ákaflega erfitt getur verið að fara yfir Víkurskarðið og berjast þar í gegn í snjóbyl og hálku. Ég tel því að þær skýrslur sem hafa fjallað um Vaðlaheiðargöng séu allar þeim annmörkum háðar að í þeim er ekki gert ráð fyrir þeirri framþróun sem er að verða á þessu svæði og ekki greind sú nauðsyn sem er á því að bæta samgöngurnar til að iðnaðarsvæðið í Þingeyjarsýslum geti einfaldlega fúnkerað eins og það á að gera.

Við sjálfstæðismenn lögðum fram viðamiklar efnahagstillögur í haust en í þeim gerum við ráð fyrir að ráðist verði í nýframkvæmdir upp á 50 milljarða á tveim árum. Við sýnum fram á leiðir til að fjármagna þær og hvernig þær eru fjármagnaðar af auknum hagvexti og auknum umsvifum vegna annarra aðgerða sem við teljum að ráðast þurfi í til að koma hjólum efnahagslífsins af stað. Það má jafnframt ekki gleyma því að það er ekki nóg með að samgöngubætur auki öryggi vegfarenda heldur leiða þær til framleiðniaukningar í hagkerfinu. Allar samgöngurannsóknir vísa til þess að framleiðni aukist í kjölfarið sem leiði til hagvaxtar sem leiði til aukinna tekna ríkissjóðs.

Því miður er tími minn búinn þannig að ég læt staðar numið.