140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[14:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra afar gagnlega spurningu. Í efnahagsáætlun okkar sjálfstæðismanna var gert ráð fyrir því að farið yrði út í fjárfestingar hér á Íslandi sem mundu nema allt að 150 milljörðum á þessu ári og því næsta og það kom frá þrem þáttum. Það kom frá fjárfestingum hins opinbera í innviðum, 50 milljarðar, sem er vegakerfið. Það kom í fjárfestingu í orkuverum og orkufrekum iðnaði sem átti að skapa, að mig minnir, 40 milljarða og síðan var það fjárfesting í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem átti að skapa í kringum 50–60 milljarða. Ég man ekki nákvæmlega tölurnar en þetta er nokkurn veginn svona.

Þessar fjárfestingar skapa eftirspurn eftir vinnuafli. Við gerum ráð fyrir að fyrsta árið muni skapast eftirspurn upp á 9 þúsund starfsmenn og árið þar á eftir upp á 5 þúsund starfsmenn. Þessir tveir þættir, fjármagn og vinnuaflið, mundu skapa hagvöxt sem næmi fyrstu tvö árin rúmum 5% og mundi síðan lækka með tímanum niður í 2,5%. Umsvifin sem mundu fylgja þessu mundu leiða til þess að halli á ríkissjóði færi í afgang upp á 1,5% á ári, sem mundi borga niður skuldir og þetta er þrátt fyrir fjárfestingarnar í innviðunum.

Ég bendi hæstv. ráðherra á að við skrifuðum um þetta tæplega 40 blaðsíðna þingsályktunartillögu þar sem þetta er allt saman útskýrt betur en hægt er að gera hér í tveggja mínútna ræðu.