140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[14:21]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var kannski ekki nógu skýr í þessu stutta svari mínu hér áðan en tekjur til að ráðast í þessar fjárfestingar koma af auknum umsvifum og hagvöxtur upp á þetta 5%, sem rekinn er áfram af fjárfestingu, styrkir skattstofna ríkissjóðs og gefur meiri tekjur. Bara það að fá þessi 14 þúsund nýju störf … (Innanrrh.: Hvar á að taka peninga að láni?) Hæstv. ráðherra, það er það sem ég segi, að það eru aukin umsvif, þ.e. skatttekjur ríkisins verða mun meiri án þess að hækka skatta vegna þess að fleiri borga skatta og fleiri borga hærri skatta. (Innanrrh.: Já, en hvaðan kemur fjárfestingin?) Fjárfestingin kemur frá þrem stöðum, úr sjávarútvegi, þ.e. litlum og meðalstórum fyrirtækjum og sjávarútvegur þar með talinn, fjárfesting hjá hinu opinbera og fjárfesting í orkuverum og stóriðju. (Innanrrh.: Hvaðan ætlarðu að fá peningana?)

Virðulegur forseti. Nú er ég eiginlega alveg að verða kominn á gat með þetta. Hæstv. ráðherra spyr stöðugt: Hvaðan koma peningarnir? Og ég er alltaf að útskýra hvaðan peningarnir koma. Nú er það þannig að ég var prófessor í hagfræði til margra ára og kenndi hagfræði í 15 ár og ég býð bara hæstv. ráðherra að kenna honum hvaðan peningarnir koma nákvæmlega og býð honum hér með ókeypis upp á tíu tíma í hagfræði. (Gripið fram í.)