140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[14:45]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum um samgönguáætlun og þetta hefur verið ágætisumræða í dag. Ég vil þó í upphafi segja að ég hef ákveðna samúð með hæstv. innanríkisráðherra að þurfa að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu. Á yfirborðinu er þetta mjög fallegt plagg en þegar maður fer að lesa og kafa dýpra ofan í það kemst maður að sömu niðurstöðu og flestir sem hafa skoðað það, það verður alltaf sorglegra eftir því sem lesið er lengra og farið er dýpra.

Ég hef rætt við áhugamenn um vegagerð og sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið, og menn hafa miklar áhyggjur af næsta áratug þegar kemur að samgöngumálum og þeirri samgönguáætlun sem nú liggur fyrir. Yfirborðið er fallegt, hugsunin er falleg í inngangi, en þegar maður fer að rýna í tölur og verkefni fyllist maður ákveðnu þunglyndi og áhyggjum.

Við höfum nýlega heyrt fréttir um að stórt verktakafyrirtæki, KNH verktakar, sé hugsanlega á leið í þrot og það kunni að leiða til þess að smærri verktakafyrirtæki sem hafa verið undirverktakar hjá því ágæta fyrirtæki fari jafnvel sömu leið. Þetta þýðir uppsagnir og hvert geta þeir einstaklingar sem þarna starfa leitað? Þeir geta ekkert farið, það eru engin verkefni í gangi. Eini möguleikinn er sá að þeir flytjist úr landi, fari til Noregs í vinnu þar við mannvirkjagerð og vegaframkvæmdir.

Nýlegt viðtal við aðila í vinnuvélainnflutningi og -útflutningi var sláandi. Sjaldan hefur verið eins mikið að gera en það er ekki í innflutningi heldur útflutningi á vinnuvélum. Gríðarlega mikið er flutt úr landi af vinnuvélum og stórvirkum tækjum til vegagerðar og mannvirkjaframkvæmda og sá útflutningur heldur enn áfram þrátt fyrir að þrjú ár séu liðin frá efnahagshruni. Þetta, virðulegi forseti, er mikið áhyggjuefni og við verðum að taka það inn í umræðuna þegar við ræðum þær fjárveitingar sem setja á til samgöngumála. Það verður gríðarlega dýrt þegar að því kemur að endurnýja tækjakost þegar tækin hafa verið flutt út á undirverði, þegar við höfum tapað mörgum af þessum góðu starfsmönnum úr landi. Þetta verður að taka inn í umræðuna þegar við ræðum þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til samgöngumála.

Áður en ég fer í samgönguáætlunina sjálfa og þau verkefni sem þar eru á blaði er fróðlegt að rifja upp fjárveitingar til samgöngumála. Árið 2008 voru þær um 30 milljarðar, 2009 25 milljarðar, 2010 20 milljarðar, 2011 15–16 milljarðar. Sá grunnur sem þessi áætlun byggir á var ákvarðaður um mitt síðasta ár og miðaðist við síðustu tölurnar.

Allir hafa skilning á því að verulega hefur dregið saman í hagkerfinu og ekki er jafnmikið fjármagn í boði og var áður. Sú þróun sem þessi áætlun mun hafa í för með sér er hins vegar áhyggjuefni. Það má búast við flutningi verktaka af landi brott, gjaldþrotum fleiri fyrirtækja og að samgöngumannvirki og samgöngubætur á stórum hluta landsins verði ekki að veruleika allt til ársins 2022.

Ef við setjum þetta í samhengi hafa margir miklar áhyggjur, ekki bara af nýframkvæmdum heldur einnig af því að þegar kemur fram á jafnvel annað tímabil samgönguáætlunarinnar séu fjármunir sem ætlaðir eru til viðhalds á vegum engan veginn nægilegir. Við horfum upp á að þungaflutningar sem núna eru allir á landi og vaxandi umferð á mörgum svæðum valda því einfaldlega að stórir hlutar vegakerfisins þarfnast verulegs viðhalds. Viðhaldi hefur verið ábótavant síðustu ár og ekki er von á úrbótum með þeim fjárveitingum sem ætlaðar eru til viðhalds samkvæmt þessari áætlun. Þetta verðum við líka að setja í samhengi við það að hið svokallaða slitlag sem sett er á vegina þarfnast meira viðhalds en gamla malbikið og viðhaldskostnaður er því meiri. Þetta er einnig áhyggjuefni.

Á sama tíma og ekki er tryggt nægilegt fjármagn til viðhaldsframkvæmda né nýframkvæmda á stórum svæðum, eins og ég kem inn á á eftir, hefur ferðaþjónustan vaxið gríðarlega og erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands fjölgar mjög. Það verður algengara ár hvert að ferðamenn sem ekki eru vanir akstri á malarvegum lendi í vandræðum á malarvegum vítt og breitt um landið. Á næstu árum, samhliða auknum straumi ferðamanna og meiri umferð, verðum við að setja aukna fjármuni til samgöngumannvirkja og flutninga á landi. Við verðum líka að setja þetta í samhengi við það að grunnurinn undir allri byggðastefnu, grunnurinn undir því að halda landinu öllu í byggð eru samgöngurnar, þær eru algjört grundvallaratriði í öllu tilliti við að tengja saman svæði, tengja saman atvinnusvæði, ná fram hagræðingu í þjónustu hjá fyrirtækjum og flytja atvinnustarfsemi út á land. Samgöngur og fjarskipti eru grunnurinn að öllu slíku.

Ég get ekki orða bundist, herra forseti, þegar ég fer ofan í þessa áætlun og skoða ákveðin landsvæði. Ef við rennum til dæmis yfir norðvestursvæðið svokallaða er sláandi að nær engar nýframkvæmdir eru á svæðinu að undanskildum vegarkafla á sunnanverðum Vestfjörðum. Uppsveitir Borgarfjarðar, Mýrar, Dalasýsla — engar framkvæmdir eru áætlaðar á þessum svæðum allt til ársins 2022. Að undanskildu því að hefjast á handa við gerð Dýrafjarðarganga á þriðja hluta áætlunarinnar eru engar vegaframkvæmdir á norðanverðum Vestfjörðum allt til ársins 2022. Þegar kafli yfir á Drangsnes klárast verða heldur engar vegaframkvæmdir á Ströndum eða í Árneshreppi allt til ársins 2022.

Við getum haldið áfram. Húnavatnssýslur, þar má taka Vatnsnes sem dæmi um vegarkafla sem þarfnast mjög nauðsynlega úrbóta. Engar framkvæmdir eru áætlaðar í Vestur- eða Austur-Húnavatnssýslu allt til ársins 2022 og þar eru langir kaflar þar sem vegir eru orðnir mjög slakir og lélegir. Hið sama má segja um Skagafjörð. Svona getur maður rakið sig allt í kringum landið. Á gríðarlega stórum landsvæðum er ekki við neinum vegaframkvæmdum að búast allt til ársins 2022. Þetta hefur, herra forseti, gríðarleg áhrif á byggðaþróun sem hefur verið neikvæð á mörgum þessara svæða og tilraunir manna til að efla og auka byggðina. Þetta hefur líka gríðarlega slæm áhrif á atvinnustig á þessum svæðum því að á mörgum þessara svæða eru verktakar, bæði smáir og stórir, og þeir hafa fengið af þessum verkum atvinnu þannig að ekki er við nokkru að búast í þeim efnum. Ég held að miðað við áætlunina og það fjármagn sem í henni er geti margir þessara verktaka búið sig undir að selja tækjakost sinn úr landi hið fyrsta því að það eru engin verkefni fram undan, herra forseti.

Eitt svæði hefur verið töluvert í umræðunni, það er kannski ekki stórt en mér finnst ég knúinn til að taka það upp vegna þess að rætt var um það fyrr í dag. Það er Árneshreppur á Ströndum. Þar glíma íbúar við að ekki er mokað þar frá janúar og fram að páskum ár hvert vegna þess að Árneshreppur fellur undir svokallaða G-reglu. Hver er ástæðan fyrir því að ekki er mokað? Jú, það er vegna þess að vegurinn er þannig að ekki er hægt að moka hann vegna öryggissjónarmiða og annars. Íbúar í þessu sveitarfélagi samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun mega búast við því að svona verði þetta í 10–15 ár í viðbót og það sama á auðvitað við um Vestfirðina í heild. Það er því ekki, herra forseti, hægt að halda því fram að sú áætlun sem við ræðum hér sé jákvætt plagg á nokkurn hátt, hún er það alls ekki. Hún er algjört reiðarslag fyrir mörg þessara landsvæða og ljóst að áhrif hennar verða allra síst jákvæð.

Eins og ég kom inn á áðan eru samgöngur undirstaða allrar byggðastefnu. Við sjáum hvaða áhrif samgöngumannvirki hafa haft í því að tengja saman atvinnusvæði, efla ákveðin byggðarlög og koma þeim — ja, bjarga þeim vil ég segja. Því miður horfum við upp á það í þessari áætlun að stór svæði munu ekki njóta þess, og ég nefni sérstaklega Dýrafjarðargöng og tenginguna á milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða. Fólksfækkunin á Vestfjörðum hefur haldið áfram jafnt og þétt síðustu árin með sama hætti og hún hefur gert og mönnum reiknast til að að óbreyttu líði ekki á löngu þar til síðustu íbúarnir flytji í burtu af Vestfjörðum. Það er því gríðarlega alvarlegt að engar samgönguframkvæmdir á norðanverðum Vestfjörðum séu fyrirhugaðar fyrr en kemur fram á seinni hluta áætlunarinnar.

Ég fagna því að í umræðunni fyrr í dag lýsti varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, því yfir að þessi áætlun þyrfti að taka breytingum. Hv. þingmaður reifaði jafnframt sömu áhyggjur og ég hef lýst hér. Ég fagna því að einhver vilji sé til að breyta áætluninni en ég minni jafnframt á að vandamálið er í grunninn það að ekki eru nægilegir fjármunir í henni. Auðvitað skilja menn að minna er af fjármunum nú en áður en afleidd áhrif af samgöngumannvirkjum skila sér að hluta til til baka í ríkissjóð. Við verðum líka að taka inn í myndina að við töpum því ágæta fólki úr landi sem mundi starfa við slíkar framkvæmdir, ef atvinnustigið fer niður fyrir ákveðin mörk. Það eitt og sér er grafalvarlegt.

Ég bind miklar vonir við að umhverfis- og samgöngunefnd geri breytingar á stórum hluta samgönguáætlunar. Ef það gerist ekki, herra forseti, held ég að það sé alveg ljóst að mörg dreifbýlli svæði landsins munu árið 2022, þegar þessari samgönguáætlun lýkur, verða ansi grátt leikin. Ef engar samgönguframkvæmdir verða á stórum hluta landsins næstu 10–15 árin er það algjört reiðarslag fyrir byggðastefnu í landinu. Ég vil segja, herra forseti, að nái þetta fram að ganga gæti svo farið að þetta ágæta plagg sem við ræðum hér verði fremur eins og minningargrein fyrir mörg byggðarlög. Hvernig verður til dæmis Árneshreppurinn eftir 10–15 ár ef engar samgönguframkvæmdir verða þar? Það er þess vegna sem ég sagði í upphafi máls míns að hæstv. innanríkisráðherra væri nokkur vorkunn að þurfa að mæla fyrir þessari áætlun vegna þess að eftir því sem maður kafar dýpra ofan í hana fyllist maður meiri ótta um það hverjar afleiðingar hennar verða.