140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Það breytir því ekki að þegar við skoðum þessa áætlun og förum yfir stór landsvæði, ég nefndi Borgarfjörð, Mýrarnar, Dalasýslu, Strandirnar, Árneshrepp, Vestur- og Austur-Húanvatnssýslu, eru þetta allt svæði þar sem nær engar samgönguframkvæmdir eru áætlaðar í áætluninni allt til ársins 2022. Þegar maður fer um og hittir þá sem starfa í þessum geira allt í kringum landið, í öllum þeim litlu kaupstöðum sem eru allt í kringum landið, verktaka sem reka allt frá einum vörubíl eða einni gröfu upp í stærri verktakafyrirtæki eins og við þekkjum á Ísafirði, KNH, fullyrði ég að í mörgum þeirra hefur hljóðið sjaldan eða aldrei verið þyngra. Menn velta fyrir sér hver áhrifin verði af því að við horfum upp á nær engar samgöngumannvirkjaframkvæmdir allt til ársins 2022. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni þrátt fyrir að á ákveðnum svæðum sé auðvitað verið að ráðast í samgöngumannvirki.

Áhyggjuefnið er, og það er það sem ég kom inn á í máli mínu, hversu lítið fjármagn við setjum í vegagerð og þau áhrif sem það kann að hafa á atvinnulíf í einstökum byggðarlögum. Þær áhyggjur mínar eru til staðar, allir hafa af þessu áhyggjur, allt í kringum landið, hjá sveitarstjórnum og litlum atvinnufyrirtækjum á landsbyggðinni. Ég fullyrði að það er ekkert svartsýnisraus í mér sem veldur þessu. Ég er nýkominn af Vestfjörðum, Hólmavík, Dölunum og Snæfellsnesi þar sem þetta (Forseti hringir.) er hljóðið sem maður heyrir. Það er miklu þyngra núna en það var fyrir einu ári eða tveimur.