140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal með glöðu geði gera það því að hæstv. innanríkisráðherra virðist ekki sjá ljósið frekar en ríkisstjórnin sem nú hefur starfað í bráðum þrjú ár.

Málið er að búið er að gera 170 breytingar á skattkerfinu. Aðilar úr atvinnulífinu eru sammála því að með þeim breytingum hafi fjárfestingar í íslensku atvinnulífi ekki verið eins miklar og þær hefðu getað orðið.

Búið er að halda sjávarútveginum í óvissu núna á þriðja ár og hann hefur haldið aftur af sér fjárfestingu til að styrkja innviði sína, fjárfestingu sem hefði skilað störfum. Því hefur margoft verið frestað að leggja fram rammaáætlun sem hefði getað komið á fót einhverjum framkvæmdum á sviði orkuvinnslu og iðnaðar. Ég veit að sumir mega ekki heyra á það orð minnst. Af þessum hundruðum eða þúsunda störfum sem þarna hefðu getað skapast á þeim tæpu þremur árum sem ríkisstjórnin hefur verið við völd hefðu komið milljarðar í ríkissjóð, hefðu komið hundruð milljóna eða milljarðar til sveitarfélaganna í landinu. Þetta hefði líka aukið tekjur heimilanna í landinu, þeirra sem hafa ekki atvinnu og þar með væri kannski skuldavandinn minni.

Hæstv. ráðherra virðist einfaldlega ekkert sjá nema skattahækkanir og niðurskurð. Það er kannski kjarni málsins að núverandi ríkisstjórn hefur einfaldlega ekki séð ávinninginn í því að ráðast í framkvæmdir sem skila auknum tekjum í ríkissjóð, það er kannski meinið.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvað honum finnist um það að í ljósi þess að eldsneytisverð er orðið þetta hátt og Vegagerðin hefur meðal annars bent á í tengslum við síðustu fjárlög að nú fari tekjur ríkisins af eldsneytissölu jafnvel að fara minnkandi vegna þess að verðið er orðið svo hátt að eftirspurnin minnkar — og hverjir græða þá? Enginn, það tapa allir vegna þess að eldsneytisverðið og gjaldtakan er orðin allt of há hjá núverandi ríkisstjórn.