140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir inngang hans um þessa þingsályktunartillögu og þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Hér hefur oft og tíðum verið mjög hressileg umræða, ekki síst sú sem var að enda. Ég ætla ekki að hætta mér inn í þau lokaorð sem sögð voru en ég vil þó halda einu til haga, herra forseti. Það er einn banki sem heitir Glitnir eða Íslandsbanki í dag. Hann hefur aldrei verið einkavæddur fyrr en núna, einmitt af þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Það er í fyrsta sinn sem hann er einkavæddur og hann er einkavæddur þannig að einhverjir kröfuhafar sem við vitum varla hverjir eru fengu hann í hendur, (Utanrrh.: Það er gagnsæið.) en ég held að við höfum þekkt þá kumpána sem keyptu bankana hérna um árið.

Af því að Landsvirkjun var nefnd, það gríðarlega mikilvæga fyrirtæki fyrir íslensku þjóðina og Ísland sem ávallt skal vera í eigu þjóðarinnar eða ríkisins að mínu viti, er búið að hrekja töluvert af því rugli sem kom út úr forstjóra þess fyrirtækis fyrir nokkru um arðsemi einstakra verkefna og annað. Það er mjög slæmt þegar fyrirtækið er orðið einhvers konar pólitísk skrifstofa úr fjármálaráðuneytinu.

Að samgönguáætlun. Áætlunin eða sú bók sem hér er lögð fram er að venju mikil að vexti. Farið er ágætlega yfir forsendur og hitt og þetta en í öllu því plaggi er þó ýmislegt sem menn vilja gera athugasemdir við, hvort sem það eru framkvæmdir, framkvæmdaröð eða annað. Mig langar að byrja á fyrstu blaðsíðunni þar sem stendur í stefnumótun, með leyfi forseta:

„Grunnnet samgangna á landi, í lofti og á sjó verði byggt upp með hliðsjón af sóknaráætlunum landshluta og tillögum um forgangsröðun framkvæmda, byggðum á félagshagfræðilegri greiningu.“

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér til hlítar þá félagshagfræðilegu greiningu sem talað er um hér, en mér kæmi á óvart ef áherslurnar eru í anda félagshagfræðilegrar greiningar.

Á bls. 4 í d-lið er atriði sem mig langar aðeins að minnast á, það er tilraunaverkefni um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þar er talað um tíu ára verkefni, 1.000 millj. kr. á ári frá ríkinu, þá alls 10.000 millj. kr. Fram kemur að forsenda þess að hægt sé að fara í það verkefni sé meðal annars frestun stórra framkvæmda. Ég hef það á tilfinningunni að við séum ekki enn þá búin að ná áttum í því hvernig við viljum sjá samgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu líta út, þá ætla ég að leyfa mér að nefna sérstaklega Sundabraut og tengingarnar út úr borginni. Vandræðagangurinn í kringum það að klára það verkefni, sem ég vil ekki síður vísa til borgarinnar en til ríkisins eða Vegagerðarinnar, er algerlega óþolandi. Þetta hljómar eins og verið sé að kaupa sér tíu ára frest til að taka á því máli og sá frestur kosti 1.000 millj. kr. á ári af hálfu ríkisins í staðinn fyrir að nota þessa 10.000 millj. kr. á tíu árum til að fara í framkvæmdirnar. Það er kannski einföldun á myndinni en svona gæti hún litið út.

Síðan má nefna fleira í f-lið. Þar er talað um breytta skattlagningu á ökutæki þar sem hvati er til að kaupa sparneytnari ökutæki. Ég tek undir að það er mjög æskilegt að við keyrum á sparneytnum ökutækjum en hvatinn má ekki vera sá að við fórnum hugsanlega öryggi vegfarenda eða þeirra sem kaupa sér bifreiðar því að margar kannanir sýna að fólk leitar í smærri bíla, litla bíla, pínulitla bíla. Ég segi fyrir mig, sem keyri norður í land einu sinni til tvisvar í viku og stundum oftar í aðra landshluta, að það mundi ekkert þýða fyrir mig að keyra á pínulitlum bíl, það væri algerlega útilokað. Það gildir um flesta sem búa utan þéttbýlis að ekki er hægt að bjóða þeim upp á pínulitla sparneytna bíla til langra ferðalaga. Þess vegna þarf að hvetja til þess að gera kerfið þannig að hægt sé að kaupa sér stærri bíla en að þá sé horft til þeirra sem menga minna eða spara, dísilbíla og þess háttar. Ég vara við því að menn gangi of langt í þessum efnum.

Síðan er talað um markmið um jákvæða byggðaþróun á bls. 6. Þar stendur að samgöngur tengi saman fólk og byggðir o.s.frv. Síðan er rætt um styttingu ferðatíma o.fl. Það fer ekki endilega saman. Þarna getur verið um árekstur að ræða. Það fer ekki endilega saman að stytta ferðatíma og efla byggð og tek ég þá dæmi um styttingu vega í Húnavatnssýslum. Ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa slegið þá framkvæmd út af borðinu, í bili í það minnsta. Sú framkvæmd hefði veikt mjög Blönduós, svo maður segi það bara hreint út, og eins hin byggðarlögin sem njóta umferðarinnar sem þar er, þ.e. um Skagaströnd, Skagafjörð og hugsanlega Siglufjörð líka af því að umferðin liggur þar í gegn. Það þarf að skoða vel þegar mótsagnir eins og þessi koma upp.

Aðeins að framkvæmdum. Samgöngur, hvort sem við erum að tala um vegasamgöngur, flugsamgöngur, samgöngur á sjó eða fjarskipti, snerta svo marga þætti, það eru vitanlega byggðamál að svo mörgu leyti. Það eru líka atvinnumál því að samgöngur skapa atvinnu, ekki bara meðan framkvæmdir standa yfir heldur geta þær líka skapað tækifæri á aukinni atvinnusókn milli svæða. Ég tek dæmi um það sem stendur mér nærri, hinn rómaða Þverárfjallsveg sem gerir það að verkum að menn geta sótt atvinnu milli byggðarlaga sem þeir gerðu ekki áður. Það eru öryggismál og samfélagsmál og við þurfum að hafa það í huga.

Örstutt um fjarskipti. Við ræðum reyndar fjarskiptaáætlun síðar í dag en ég get ekki sleppt því að nefna að sumar af þeim reglum sem unnið er eftir eru algerlega galnar hvort sem þær tengjast fjarskiptasjóði eða einhverju öðru. Sem dæmi um það eru Reykir í Hrútafirði þar sem ljósleiðarinn liggur í eina bygginguna á svæðinu en vegna einhverra furðulegra sjónarmiða eða samkeppnisreglna geta menn ekki fengið ljósleiðarann inn vegna þess að eitthvert fyrirtæki sem heitir Emax setti á sínum tíma upp kerfi þarna sem er algerlega ómögulegt og gengur ekki. Heimamenn eru mánuðum og árum saman búnir að óska eftir því að fá tengingu í þennan ljósleiðara eða ADSL-tengingu sem er úti í Staðarskála en það er ekki hægt. Það ræðum við betur á eftir í fjarskiptaáætluninni en þetta er dæmi um að það er svo margt vitlaust í kerfinu.

Svo maður tali nú um vegina sem taka mestan tíma í þessum umræðum, er einn vegur sem við höfum mörg hver miklar áhyggjur af og það er að sjálfsögðu þjóðvegur 1. Við sem keyrum hann mikið og reglulega sjáum að hann er víða mjög bágborinn og er mikilvægt að skoða hvort ekki þurfi sérstakt átak til að fara víða í endurbætur á þjóðvegi 1. Ég fagna því að í áætluninni sé talað um, reyndar mjög seint, svokallaða Biskupsbeygju uppi á Holtavörðuheiði eða á heiðarsporðinum, en það eru margir aðrir kaflar á þessum vegi sem eru illa farnir eða ómögulegir. Það er búið að gera nokkurt átak í að breikka veginn á sumum stöðum en það þarf vitanlega að gera miklu meira.

Ég fagna því hins vegar sérstaklega að áhersla sé lögð á Vestfjarðaveg, á suðurfirðina, í þessari áætlun, svo maður sé nú sanngjarn. Það er að vísu áhyggjuefni að ekki sé búið að ákveða alveg hvar sá vegur á að liggja. Mér skilst að mati á því sé lokið en ég óska eftir því að menn reyni að standa saman um að koma veginum niður á láglendið því að það er krafa íbúanna og annarra og það er líka öruggast. Ég vonast til að við getum sammælst um það. Ég ætla ekki að segja meira í bili. Þegar er búið að lofa fjármunum í þessar framkvæmdir í áætluninni en við megum ekki láta þá ýtast áfram eða aftur á bak vegna þess að menn nái ekki saman um hvaða leið eigi að fara.

Ég tek undir orð þeirra sem furða sig á því að hér eru stór svæði sem nánast engar eða litlar framkvæmdir eru á. Ég nefndi í andsvari fyrr í dag hið gamla Norðvesturkjördæmi og ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að þar sé ein framkvæmd en hún er mjög seint í áætluninni. Það er Skagastrandarvegur sem er mjór, hlykkjóttur og hæðóttur vegur, ég er reyndar mjög hissa að ekki skuli hafa orðið alvarlegri slys á þeim vegi en það á að byrja á framkvæmdum þar. Síðan eru það vegir eins og vegurinn fyrir Vatnsnesið inn í Miðfjörð, vegurinn niður í Borgarfjörð, um uppsveitir Borgarfjarðar, Laxárdalsheiði, Laxárdalsvegur og Reykjaströnd fyrir norðan. Það eru vegir sem skipta gríðarlega miklu máli í atvinnulegu tilliti, ekki síst út af ferðaþjónustu, og mér finnst svolítið sérstakt að sjá að ekki séu neinir fjármunir hugsaðir til bóta á þeim vegum.

Ég mun hvetja umhverfis- og samgöngunefnd til að skoða vandlega þau verkefni sem dottin eru út en voru áður inni.

Herra forseti. Það er kannski ekki ástæða til að fara dýpra í þetta. Það er margt sem hægt er að gagnrýna. Það er ljós punktur að mínu viti í áætluninni að áhersla virðist vera á að laga vegina fyrir vestan. Það eru hins vegar enn þá einhver ljón á veginum þar, m.a. innan veggja Alþingis. Það er hins vegar áhyggjuefni að við sjáum ekki fleiri smærri framkvæmdir en hér eru því að þær auka ekki síður tekjur og eru litlum verktökum mjög dýrmætar, en til að fá fjármuni í vegaframkvæmdir, rekstur sjúkrahúsa eða hvað sem er þarf ríkið að sjálfsögðu að fá tekjur. Þær tekjur koma fyrst og fremst í gegnum atvinnulífið og atvinnulífið þarf að eflast, það þarf að stækka kökuna sem borgar skatta, borgar tekjur. Ef það er gert þannig er jafnvel hægt að lækka skatta en forsendan er jafnan sú að kakan, það sem skaffar fjármuni til ríkisins og heimilanna, það sem fer í hringrásina, þarf að vera miklu stærri en í dag. Þar ætla ég að leyfa mér að taka undir þau gagnrýnisorð sem hér hafa fallið um ríkisstjórnina, þar stendur ríkisstjórnin sig ekki vel.