140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög málefnalega ræðu og margar ágætar ábendingar sem fram komu hjá honum. Eitt vil ég upplýsa um á þessari stundu þó að ég komi inn í umræðuna aftur í lokin og svari ýmsu sem nefnt hefur verið, en fjármagn er hugsað til ýmissa framkvæmda á Norðvesturlandi þó að þess sjái ekki stað í áætluninni. Það eru liðir svo sem malbik á tengivegi sem eru enn óskiptir og fara í framkvæmd á þessu svæði.

Annað sem ég vil nefna er framlag í tilraunaverkefni á áratug til að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þingmaður velti vöngum yfir því hvort hér væri einhver aðgerð á ferðinni til að fresta ákvörðun um stórframkvæmdir á því svæði, svo er ekki. Það er vilji til þess og að ég hygg þverpólitískur vilji, bæði hjá sveitarstjórnarfólki á svæðinu og í þessum sal, að minnsta kosti í ríkisstjórninni, að ráðast í stórátak í almenningssamgöngum. Það er í þessu formi sem við gerum það á þessu svæði og þá verður vissulega eitthvað annað undan að láta vegna þess að við þurfum að horfa á hvaða fjármuni við höfum til ráðstöfunar. En síðan tel ég eflingu almenningssamgangna á landsbyggðinni á vegum landshlutasamtaka vera gríðarlegt framfaraspor og löngu tímabært að samhæfa og samræma margvíslega þjónustu á (Forseti hringir.) vegum hins opinbera, skólaflutninga og annað af því tagi, þannig að við nýtum fjármunina betur og eflum samgöngur (Forseti hringir.) fyrir almenning.