140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:54]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun, þá lengri og þá styttri. Samgöngumál skipta Íslendinga mjög miklu máli, fámenna þjóð í dreifbýlu landi sem hefur miklar og sterkar skoðanir á því hvernig vegum og samgöngumálum skuli háttað. Það er mjög eðlilegt og eðlilegt að um þau skapist mikil umræða á Alþingi Íslendinga.

Margt mjög gott er í því plaggi sem hér liggur fyrir. Það er gott að við vinnum eftir ákveðinni stefnu, það er gott að við vinnum eftir ákveðnum áætlunum og að við ætlum að sameina áætlanir og samþætta þær. Það er virkilega gott mál. Ég er mjög ánægð með þá áherslu sem lögð er á almenningssamgöngur þar sem það á við á hinum þéttbýlli svæðum. Ég held að það sé farsælt skref sem verið er að stíga víða þar sem landshlutasamtökin hafa tekið að sér að vera eins konar samhæfingaraðili í því að skipuleggja almenningssamgöngur víða á víðfeðmum svæðum. Við sjáum merki um það, bæði hefur slíkt samgöngukerfi tekið gildi á Suðurlandi þar sem nú er hægt að taka strætó í höfuðborgina og keyra austur á Höfn og síðan er hægt að gera það sama fyrir austan. Ég hef aðeins áhyggjur af því að mér fannst ég hvergi sjá að það væri öruggt að hægt væri að komast á milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs en það er vonandi í lagi.

Mér finnst líka skipta máli að í þessari áætlun er talað er um að mikilvægt sé að gangandi og hjólandi vegfarendur geti komist ferða sinna á eðlilegan hátt. Það er talað um aðgengi fatlaðra sem skiptir mjög miklu máli. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita hvaða fjármagn er ætlað til þess, ég hef starfað innan þess geira og menn eru í dálitlum vandræðum með framkvæmdafé þar til að lagfæra aðgengismál í gömlum opinberum byggingum. Og það er meira að segja talað um reiðstíga þannig að ég held að þetta sé allt saman hið besta mál.

Mér finnst líka gott að sjá, og hafa fengið að upplifa það á fundum sveitarstjórnarstigsins, að gert er gert ráð fyrir að áætlanagerð og ábyrgð fari heim í hérað og að Samtök sveitarfélaga vítt og breitt um landið komi sér saman um helstu áherslu sínar. Ég tel að þetta sé allt saman mjög gott og gilt. Síðan þurfum við að vega og meta eftir ákveðinn tíma hvernig til hefur tekist.

Ég ætla að byrja á að ræða aðeins markmiðin. Mér finnst skipta máli þegar sett eru markmið að farið sé eftir þeim. Við verðum að meta þau, við verðum að athuga hvort við höfum náð þeim. Meginmarkmiðið er að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar, auk þess að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun og ég sem landsbyggðarkona hef kannski ekki síst sérstakan áhuga á að þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Hér er svo talað sérstaklega um Ísland 20/20 og sóknaráætlanir fyrir landshlutana sem ég held að sé mjög gott mál.

Síðan er talað talsvert um atvinnu- og þjónustusvæði sem ég tel mjög gott mál. Talað er um að þetta kalli á opinbera stefnumörkun og að skilgreina þurfi atvinnu- og þjónustusvæði og kjarna þeirra. Þetta tel ég mjög gott mál en víða um land er þetta talsvert viðkvæm umræða. Ég held að landsvæðin gætu þurft ákveðna leiðsögn í því að vinna þá vinnu. Hér er settur upp ákveðinn rammi í kringum þessa hugsun um atvinnu- og þjónustusvæðin, þetta er hugsað þannig að fólk sæki vinnu daglega sem geti tekið allt að 45 mínútna akstur og upp undir klukkutíma. Þetta er allt gott og gilt. En það kemur líka fram að það geti verið að hámarksvegalengd sem reikna má með að fólk þurfi að fara til að sækja þjónustu sé nokkru lengri.

Mig langar að lesa hér á bls. 9 í því plaggi sem ég er með þar sem vitnað er í greinargerð faghóps Háskólans á Akureyri en þar er talað sérstaklega um Austurland. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Á Austurlandi búa um tíu þúsund manns á svæði sem nær frá Vopnafirði í norðri að Djúpavogi í suðri og er það vel innan við tvö hundruð kílómetrar í þvermál. Líta má á allt Austurland sem eitt þjónustusvæði hluta ársins en erfiðir fjallvegir margskipta því að vetri til.“

Svo er rætt um innanlandsflug til Egilsstaða sem er í ágætislagi o.s.frv. Þarna einmitt liggur hundurinn grafinn. Þess vegna erum við sem höfum valið okkur búsetu á landsbyggðinni svo upptekin af samgöngum, við lendum svo oft í því að ákveðinn hluta ársins er einmitt okkar svæði, sem ætti að geta verið eitt svæði, svo margskipt vegna erfiðra samgangna. Það gerir okkur í raun og veru líka erfitt fyrir bæði með sameiningu og samvinnu stofnana, t.d. á sviði heilbrigðis- og menntamála, að við getum ekki treyst á það allt árið að geta komist ferða okkar. Þetta skiptir allt miklu máli.

Það eru örfá atriði sem mig langar til að drepa á fyrir utan þetta. Mig langar til að lýsa yfir ánægju minni með að talað er um að reyna eigi að ná samkomulagi um að miðstöð innanlandsflugsins verði áfram þar sem hún er núna, að reynt verði að ná sátt um þá staðsetningu. Ég minni á að innanlandsflug er fyrir okkur sem búum langt frá Reykjavík stór hluti af almenningssamgöngum. Þess vegna verðum við að gæta okkar, bæði þurfum við að gæta þess að flugvöllurinn sé miðsvæðis og svo þurfum við líka að gæta þess að fargjöldin verði ekki svo há að það keyri algjörlega úr hófi fram og flugið verði í raun og veru ekki kostur sem almenningur geti nýtt sér, sá mikilvægi ferðakostur þar sem við getum ferðast á milli á mjög stuttum tíma og jafnvel fram og til baka sama daginn. Staðan er þannig núna að fullt fargjald til dæmis til heimabæjar míns, Egilsstaða, er rétt um 20 þús. kr. aðra leiðina. Þarna verðum við að gæta okkar mjög í gjaldtöku, finnst mér, við verðum að gæta þess að þessi góði kostur sé áfram til staðar.

Síðan langar mig aðeins til að velta upp og jafnvel spyrja hæstv. ráðherra um hringveginn, þjóðveg 1. Hann hefur fyrsta númerið, þjóðvegur 1. Hver er í raun staða hans? Við stöndum frammi fyrir því á Austurlandi, sem er fjærst Reykjavík — og ég verð að viðurkenna að aftur og aftur finnst mér við koma að því að eftir því sem við förum lengra frá höfuðborgarsvæðinu því verri er staðan á þessum ágæta þjóðvegi — er enn dálítill hluti hringvegarins á Austurlandi, merktur þessu fína númeri, 1, ómalbikaður og enn eru margar einbreiðar brýr á þessum vegi. Á þessi vegur að njóta einhvers ákveðins forgangs umfram annað og hefur verið rætt um einhverja breytingu á legu þessa vegar?

Þá langar mig vegna þeirrar færðar sem verið hefur undanfarið að spyrja um hálkuvarnir. Við verðum að horfast í augu við það að við þurfum að verja meira fjármagni til hálkuvarna. Þegar upp kemur sú staða að flughált er víða um helstu leiðir verðum við að vera tilbúin til að gera eitthvað í því máli.

Mig langar síðan að ræða það sem stendur hjarta mínu mjög nærri sem er jarðgangagerð. Ég veit að þetta eru mjög dýrar og fjárfrekar framkvæmdir og ég vil ekki að við förum að sprengja upp ríkisfjármálin en við verðum samt að horfast í augu við að það er afar vond þróun að ætla að hafa núna fjögurra ára tímabil þar sem ekki verður unnið við nein jarðgöng. Ég legg mikla áherslu á, ef þess er nokkur kostur og ef hagvöxtur eykst, að við förum af stað með þau jarðgöng sem næst eru á dagskrá, sem mér skildist mjög ákveðið á hæstv. ráðherra að væru Norðfjarðargöng. Það skiptir miklu máli í okkar dreifbýla, vogskorna og hálenda landi að við vinnum stöðugt að því að bora eða grafa þau jarðgöng sem við þurfum á að halda. Mér finnst skipta máli að við leggjum talsvert á okkur, án þess að setja ríkisfjármálin í uppnám, til að halda áfram með jarðgangaáætlun okkar. Ég minni á að Austfirðingar hafa sagt að þeir séu tilbúnir til að greiða einhver veggjöld fyrir þessa miklu samgöngubót, og ég minni enn og aftur á að hinum megin við þessi göng liggur mjög gott fjórðungssjúkrahús sem allir Austfirðingar þurfa að nýta sér. Ég legg mikla áherslu á þetta. Þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu vorum við Austfirðingar bjartsýn á jarðgangagerð vegna þess að við sáum hvernig borar voru nýttir til gangagerðar í sambandi við þá virkjunargerð. Ég velti þess vegna fyrir mér þeirri spurningu: Er eitthvað verið að skoða slíkt? Ég veit að til dæmis á Austurlandi er berg víða hagstætt til borunar. Er eitthvað verið að skoða þessi mál?

Ég hef nú reifað það helsta sem mér finnst skipta máli í þessu og mig langar til að brýna okkur öll þegar við setjum fram svo fallega áætlun, og markmiðin með henni eru svo sannarlega góð, að gæta þess að meta hana reglulega og spyrja: Erum við örugglega á réttri leið, erum við að ná þeim markmiðum sem við settum okkur? Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið hugsað að skoða það nokkuð reglulega hvort við séum á réttri leið og þá ekki síst hvort við séum ekki örugglega að vinna að jákvæðri byggðaþróun á Íslandi.