140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:12]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Mig langar aðeins að ítreka að Austfirðingar hafa gefið mjög ákveðið í skyn og sagt það beinum orðum að þeir væru tilbúnir til að greiða fyrir framkvæmdinni, þ.e. að fá ný Norðfjarðargöng, með veggjöldum. Við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að umferðin um þau göng er ekki nægilega mikil til að standa algjörlega undir framkvæmdinni, en mér skilst að samgönguráð hafi skoðað þá hugmynd að hugsanlega gætu einhverjar framkvæmdir verið fjármagnaðar að hluta til með veggjöldum og að hluta til með opinberu fé. Ég vil bara að þessu sé haldið til haga ef það gæti auðveldað og flýtt fyrir þessari mikilvægu framkvæmd.