140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:39]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að það sé inni á áætlun. Það þarf aðeins að gefa sér tíma til að skoða nánar þessi 44%, hvort nokkuð sé verið að ganga á hlut okkar í Norðvesturkjördæmi með þeirri skiptingu. Ég ætla ekki að hafa nein orð um það núna en ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði að skoða yrði vegalengdir og umferð á vegunum. Ég fagna því að það sé áfram þannig.

Ég tel að það sé gott sem Vegagerðin hefur gert á undanförnum árum og var breytt nú í síðustu samgönguáætlun, að byggja upp vegina, ekki endilega upp í fulla hönnun með 90 kílómetra hámarkshraða heldur að fara lágstemmdari leið (Gripið fram í.) og byggja veginn upp úr drullunni, eins og sagt er, og setja malbik á þessa vegi sem eru kannski í Borgarfirði, norður í Miðfirði, Vatnsdal og á Vatnsnesi og víðar. Það er miklu skynsamlegra því að það er miklu ódýrara að gera það með þeim hætti og sparar líka viðhald á veginum. Ég er mjög hlynntur því að fara þessa leið vegna þess að annars förum við hugsanlega tvisvar eða þrisvar sinnum lengri vegalengdir.

Hvað viðkemur Teigsskógi sagði hæstv. ráðherra að ég þyrfti líka að fylgjast með sér varðandi friðunina. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hvort það sé skoðun hans að friðlýsa eigi að Teigsskóg, hvort hann hafi verið að boða það í andsvari sínu þar sem hann sagði að við þyrftum að fylgjast með honum. Ég hefði haft miklu meiri áhyggjur af hæstv. umhverfisráðherra, en hæstv. ráðherra sagði að ég þyrfti líka að fylgjast með honum sjálfum. Er það virkilega skoðun hæstv. innanríkisráðherra að friðlýsa eigi Teigsskóg?