140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þar sem ég var að spyrja um forgangsröðun á sunnanverðum Vestfjörðum, af því að hv. þingmaður endaði ræðu sína á því að hún gæti gefið sér lítinn tíma til að fjalla um þau mál, þá vildi ég einmitt gefa hv. þingmanni tækifæri til að koma þeirri skoðun sinni á framfæri sem ég taldi og hún ítrekaði að væri samþykkt sveitarstjórnarmanna á þessu svæði um forgangsröðun.

Það sem ég spurði um í hinni spurningunni voru fordæmi um sérstakt átak til að byggja upp þjóðgarða með ákveðnu vegafé. Það var gert á Snæfellsnesi, sem hv. þingmaður nefndi, og þar sem ég bý á því svæði og þekki töluvert til varð alger bylting þar í umferð um þjóðgarðinn. Þegar menn voru áður að skoða náttúruperlurnar sem stóðu rétt við malarveginn fór ekki bara rykmökkurinn yfir ferðamennina heldur þegar þeir komu, sérstaklega erlendu ferðamennirnir, út á malarveginn sneru þeir bara frá. Ég tek því undir sjónarmið hv. þingmanns og heyri að við erum sammála um að skynsamlegt og eðlilegt væri þegar menn byggja upp þjóðgarða, við deilum ekki um það þvert á flokka, að taka ekki bara ákvörðun um að stofna þjóðgarð og vernda þá viðkvæmu náttúru sem þar er, heldur þyrftu að fylgja því efndir um að fara sérstaklega í vegagerð og uppbyggingu á svæðinu til að hlífa náttúrunni. Ég heyri að ég og hv. þingmaður erum sammála um þessi atriði. Það er tilgangslaust að setja bara á blað einhverja sóknaráætlun eða einhver markmið ef efndirnar eru síðan ekki í samræmi við þau. Ég tel því mikilvægt og skynsamlegt að samhliða þeirri uppbyggingu sem verður í kringum þjóðgarðinn á Látrabjargi verði sérstakt átak í vegamálum.