140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:30]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um fyrr við umræðuna er ekkert óeðlilegt að við enduruppstokkun endurraðist ýmis verkefni vegna þess að ein framkvæmd hefur áhrif á aðra.

Varðandi afturhleðsluna í áætluninni, að hún sé þung aftan til, byggir það á þeirri staðreynd að við höfum úr tiltölulega litlum fjármunum að moða núna fyrstu missirin og árin en við erum að vonast til að úr rætist eftir því sem líður á þennan tíma. Þannig gera fjármálasérfræðingar ráð fyrir því að hagvöxtur aukist eftir því sem líður á þennan tíma og í samræmi við það er aukið fjármagn til hinnar almennu áætlunar. Að sama skapi ætlum við að ríkið verði þá betur í stakk búið til að takast á við kostnaðarsöm verkefni á borð við jarðgöng, ferju og annað slíkt sem eru utan við þessa samgönguáætlun. Það byggir einfaldlega á því að við teljum að hinn fjárhagslegi veruleiki líti þannig út.

Ef við viljum breyta út af því þurfum við að taka umræðu um hvort og hvernig við viljum afla fjárins. Erum við tilbúin að taka peninga að láni til að spýta í núna næstu missirin? Það hefur ekki verið stemmning fyrir slíku. Erum við tilbúin að hækka skatta eða setja á veggjöld? Nei, ég held að við höfum gengið mjög langt í því efni og fólk hefur andæft því að sett verði á veggjöld, vegtollar. Það er umhverfi sem við þurfum að horfa á. Þá þurfum við að taka umræðu um það hvernig við ætlum að afla fjárins því að það gengur ekki að segja að með því að koma hjólum atvinnulífsins í gang sé allt orðið gott í einu vetfangi. (Forseti hringir.) Allt tekur það sinn tíma.