140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í almenna efnahagsumræðu við hæstv. innanríkisráðherra. Við skulum gera það síðar og á öðrum vettvangi. Ég vil ekki eyða tíma mínum um vegagerðarumræðu í það þótt ég viðurkenni auðvitað að forsendan fyrir þessu er að við höfum peningana til ráðstöfunar. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram efnahagstillögur til að sýna fram á að hægt sé að skapa þær forsendur.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að alltaf þegar við kæmum að svona tímamótum eins og við komum að á sínum tíma þá endurröðuðust einhver verkefni. Það var einmitt það sem ég lagði áherslu á. Ég tók dæmi af tveimur verkefnum, annars vegar Fróðárheiði og hins vegar Veiðileysuhálsi, sem komin voru inn á vegáætlun á sínum tíma. Þessi verkefni duttu út þegar tekjurnar minnkuðu og við höfðum öll skilning á því og mótmæltum því ekki á þeim tíma. Við gerðum það í trausti þess að þegar við færum síðan að endurraða, eins og hæstv. ráðherra sagði, mundum við segja að þær framkvæmdir sem við urðum að skera burtu um tíma kæmu inn aftur þegar við hefðum efni á þeim. Nú erum við sem sagt að búa til nýtt fjögurra ára tímabil og mér finnst það satt að segja mjög ósanngjarnt, ef ég tek bara dæmi af Veiðileysuhálsi norður í Árneshreppi, að þar var búið að setja inn 59 millj. kr. fyrir árin 2009 og 2010 en var síðan skorið burtu. Og nú, þegar kemur að því að endurraða, er sagt: Frestum þeim framkvæmdum um tíu ár, og það í byggðarlagi sem býr nánast ekki við neinar samgöngur á landi yfir háveturinn. Þangað er ekki hægt að moka því að vegirnir eru svo vondir. Þá er líka verið að segja við fólkið sem þar býr: Svona verður ástandið í tíu ár. Við ætlum ekki að moka yfir veturinn í tíu ár vegna þess að það er ekki hægt, vegirnir eru svo vondir. Við treystum okkur ekki til að leggja vegi þarna, að laga Veiðileysuhálsinn, sem er stærsti farartálminn, fyrr en eftir tíu ár þó að við höfum á sínum tíma verið búin að setja það inn í vegáætlun fyrir árin 2009 og 2010. (Innanrrh.: 60 millj. kr. upp í 1.100 millj. kr.)