140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða samningaviðræður við lífeyrissjóðina eða aðra aðila sem hv. þm. Kristjáni L. Möller var falið að reyna að leiða til lykta og hann tók að sér; en tókst ekki þrátt fyrir margar og ítrekaðar tilraunir en er síðan óspar á að reyna að koma sök yfir á aðra.

Ég þakka fyrir þessa yfirgripsmiklu ræðu, sem var flutt af mikilli sanngirni og yfirvegun, en ég vil minna hv. þingmann á að samgönguáætlun er þingsályktunartillaga. Það er viljayfirlýsing þingsins. Þegar kemur að fjárframlögum þá er það afgreitt á fjárlögum á hverju ári. Hv. þingmaður talar hins vegar á þann veg, og þetta er ekki í fyrsta skipti sem kemur fram þessi grundvallarmisskilningur eða mistúlkanir, að hann gefur til kynna að þingsályktunartillaga jafngildi fjárlögum. Það er bara alls ekki svo. Hitt er svo annað þegar hann spyr um fjármuni sem eru færðir á milli ára þá hefur það verið gert, það var á milli áranna 2010–2011 500 millj. kr. og frá síðasta ári fram á þetta ár 700 millj. kr., þá var það ósk stjórnarmeirihlutans og þeirra sem voru að reyna að halda í við útgjöld ríkisins að takmarka fjárframlög sem frekast mætti og veita þeim yfir á nýtt fjárhagsár sem var gert í þessum mæli. Þetta þekkir hv. þingmaður og hefur verið gert áður. Þetta eru upphæðirnar sem um er að ræða.

Ég gæti farið í langar viðræður við hv. þingmann um Vaðlaheiðargöng og þær forsendur sem þar eru til skoðunar en ég veit að formaður samgöngunefndar mun koma inn á það í svari sínu sem kallað hefur verið eftir.