140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt, ég tók það að mér, kannski illu heilli, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að leiða áfram viðræðurnar við lífeyrissjóðina sem báru ekki árangur. Og ég hygg að við hæstv. innanríkisráðherra getum verið sammála um það, þó við séum ekki sammála um margt hér núna, að það hafi verið rétt ákvörðun að slíta þeim viðræðum miðað við þá vexti sem lífeyrissjóðirnir vildu fá og þá vaxtatölu sem við sjáum í dag. Ætli 44 ára bréf ríkissjóðs, svokölluð íbúðabréf, séu ekki í 2,5 eða 2,4 í dag, gæti ég ímyndað mér, og minni á gott útboð Íbúðalánasjóðs. Það var því rétt ákvörðun og það sýndi þá líka, virðulegi forseti, óbilgirni lífeyrissjóðanna hvað varðar vaxtatöku í það verkefni sem verið var að vinna að fyrir upp undir 40 milljarða kr. sem var hluti af stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Nóg um það.

Hæstv. samgönguráðherra talar um samgönguáætlun sem viljayfirlýsingu Alþingis. Þetta er hárrétt, þetta vitum við öll og fjárlögin eru það sem skiptir máli, það er hárrétt. En það er þannig, virðulegi forseti, að þetta er sett niður og síðan er það baráttan: Hvað næst inn eða fyrir hverju þarf að lúffa? Þá segi ég það alveg hiklaust, vegna þess að á síðasta ári átti það að vera samkvæmt samgönguáætlun 7,5 en urðu 6, en upphæðin sem var færð milli ára, ég held hún hafi verið hærri en sú sem hæstv. ráðherra er að tala um núna. Ég held líka að sú tala sem hann er að lýsa yfir núna, frá síðasta ári til þessa árs — sem ég hef aldrei heyrt áður fyrr, að væri ósk stjórnarmeirihlutans — sé líka hærri en 700 millj. kr. En auðvitað hafa Vegagerð og ráðuneyti betri upplýsingar en ég um það vegna þess að við eigum eftir að sjá hvaða reikningar komu inn í lok árs, hvað var hægt að vinna mikið til dæmis vegna veðurs.

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið í öðru andsvari og spyrja hæstv. ráðherra út í þá peninga sem eru í núverandi áætlun fyrir Norðfjarðargöng. Af hverju og hvenær var samþykkt á Alþingi að taka þá út vegna þess að ég fullyrði að það hefur aldrei verið gert?